Phillips, Toney, Guirassy, Vlahovic, Thuram, Mbappe og fleiri koma við sögu.
banner
   þri 03. október 2023 17:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Defoe sorgmæddur: Ég hugsa núna til foreldra Bradley
Bradley Lowery og Jermain Defoe.
Bradley Lowery og Jermain Defoe.
Mynd: Getty Images
Jermain Defoe, fyrrum sóknarmaður enska landsliðsins, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfarið á því að tveir menn voru handteknir eftir leik Sunderland og Sheffield Wednesday.

Bræðurnir Dale og Drew Houghton mættu á völlinn þegar Sheffield Wednesday tapaði á heimavelli gegn Sunderland. Þeir voru ekki sáttir með gang mála í tapinu og ákváðu að svara söngvum stuðningsmanna gestaliðs Sunderland með því að ögra þeim.

Dale fann mynd af Bradley Lowery, sex ára gömlum stuðningsmanni Sunderland sem vann hug og hjörtu borgarinnar áður en hann lést árið 2017 eftir hetjulega baráttu við krabbamein, á veraldarvefnum og stækkaði hana í símanum sínum.

Þegar myndavél vallarins beindist að þeim bræðrunum ákvað Dale að sýna áhorfendum myndina sem hann hafði fundið á vefnum og hlógu bræðurnir ósmekklega og bentu á símann. Þeir voru handteknir í kjölfarið og látnir sitja í gæsluvarðhaldi yfir nóttu.

Defoe varð mikill vinur Bradley á tíma sínum hjá Sunderland en hann hefur núna sent frá sér yfirlýsingu.

„Ég er sorgmæddur vegna þess sem viðkomandi einstaklingur gerði," segir Defoe.

„Ég hugsa núna til foreldra Bradley, sem ættu ekki að þurfa að takast á við atvik sem þessi, heldur hljóta hrós fyrir það ótrúlega starf sem þau vinna með Bradley Lowery Foundation í minningu sonar þeirra. Ég hvet almenning til að standa við bakið á fjölskyldunni og halda áfram að styðja sjóðinn og verkefni hans."

„Bradley mun aldrei hætta að veita okkur innblástur. Við elskum og söknum þín Brad. Elsku, besti vinur þinn að eilífu."

Stuðningsmannahópur á vegum Sheffield Wednesday tók sig saman eftir þetta leiðindamál og safnaði tæplega 20 þúsund pundum í sjóðinn sem var gerður í minningu Bradley.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner