Ragnar Sigurðsson hefur gert áhugaverða hluti síðan hann tók við Fram í sumar, eftir að Jón Sveinsson var rekinn. Liðið er að fá fleiri stig að meðaltali í leik og áberandi bæting er í varnarleiknum þar sem Fram hefur fengið á sig 1,3 mörk að meðaltali í leik undir stjórn Ragnars (áður var það 2,4 mörk).
En það áhugaverðasta er að Raggi horfir svo sannarlega ekki á kennitölurnar hjá mönnum og er óhræddur við að kasta ungum leikmönnum í djúpu laugina, þrátt fyrir að Fram sé í harðri fallbaráttu.
Í Innkastinu var talað um að það skemmtilegasta við neðri hluta Bestu deildarinnar væru ungu leikmennirnir í Fram.
Þengill nýja hetjan í Úlfarsárdal
„Þetta er geggjað. Það vissi enginn sem fjallaði um íslenska boltann í ágúst hver Þengill Orrason væri. Hann er búinn að mæta þarna inn vegna meiðsla, strákur sem fær tækifærið því glugginn er lokaður og hann er aldeilis búinn að grípa gæsina og í raun tryggja Fram fjögur stig í síðustu tveimur leikjum," segir Baldvin Már Borgarsson í Innkastinu.
„Við höfum talað um að það vanti unga varnarmenn sem eru að koma upp, þarna er einn sem er í höndunum á Ragga Sig," segir Elvar Geir en eins og flestir vita var Ragnar lykilmaður í íslenska landsliðinu á bestu árum þess.
Þengill er átján ára varnarmaður og hafði ekki spilað eina mínútu í efstu deild þegar tvískiptingin hófst. Hann hefur verið öflugur í vörninni og auk þess skorað tvö mörk, hann tryggði Fram 1-0 sigur á KA um helgina en umferðina á undan skoraði hann mikilvægt jöfnunarmark á móti ÍBV.
„Þetta er draumur fyrir mig sem varnarmann að spila fyrir hann (Ragnar Sigurðsson). Hann er alltaf að hjálpa mér og ég finn það bara að ég er miklu betri varnarmaður," sagði Þengill sjálfur í viðtali eftir að hafa tryggt sigur gegn KA.
01.10.2023 20:16
Hetjan í Úlfarsárdalnum: Draumur að spila fyrir Ragga
Raggi sem þjálfari er eins og Raggi sem leikmaður
Þengill er fæddur 2005 en auk hans hafa þeir Breki Baldursson (2006) og Sigfús Árni Guðmundsson (2004) verið í byrjunarliði Fram undir stjórn Ragnars að undanförnu. Raggi er algjörlega óhræddur við að setja traust á unga leikmenn þó liðið sé að berjast fyrir lífi sínu.
„Hann setur Viktor Bjarka Daðason, 2008 módel, inná á 60. mínútu. Hann er ekki að gefa honum neinar ruslmínútur," segir Elvar í Innkastinu en Viktor kom inn gegn KA nokkrum mínútum eftir að Fram komst 1-0 yfir, sem síðan urðu lokatölurnar.
„Raggi sem þjálfari er eins og Raggi sem leikmaður. Það virðist ekki renna í honum blóðið og það er bara 'látum vaða á þetta."
Fram er þremur stigum fyrir ofan fallsæti fyrir lokaumferðina og ljóst að jafntefli gegn Fylki á laugardag nægir til að gulltryggja áframhaldandi veru Fram í Bestu deildinni.
Stöðutaflan
L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir