Manchester City 3 - 3 Tottenham
0-1 Son Heung-Min ('6 )
1-1 Son Heung-Min ('9 , sjálfsmark)
2-1 Phil Foden ('31 )
2-2 Giovani Lo Celso ('69 )
3-2 Jack Grealish ('81 )
3-3 Dejan Kulusevski ('90 )
0-1 Son Heung-Min ('6 )
1-1 Son Heung-Min ('9 , sjálfsmark)
2-1 Phil Foden ('31 )
2-2 Giovani Lo Celso ('69 )
3-2 Jack Grealish ('81 )
3-3 Dejan Kulusevski ('90 )
Manchester City og Tottenham skildu jöfn, 3-3, í ótrúlegum leik í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Etihad-leikvanginum í dag. Dejan Kulusevski gerði jöfnunarmarkið undir lok leiks.
Leikurinn byrjaði eins og við var að búast, með miklu fjöri. Jeremy Doku átti fínasta skot á 5. mínútu sem Guglielmo Vicario varði og tæpri hálfri mínútu síðar skoraði Heung-Min Son fyrsta mark leiksins.
Tottenham keyrði upp í skyndisókn og var það Kulusevski sem laumaði boltanum á bakvið Doku, sem áttaði sig ekki á því að Son væri þar, en Suður-Kóreumaðurinn kom sér fram fyrir hann áður en hann setti boltann í netið.
Tæpum þremur mínútum síðar kom jöfnunarmark heimamanna og aftur var það Son sem skoraði, að vísu í eigið net. Aukaspyrna Julian Alvarez rataði inn í teiginn en fór klaufalega af Son og í netið.
Norski framherjinn Erling Braut Haaland hefur átt betri leiki fyrir framan markið. Hann fékk dauðafæri á 13. mínútu, boltinn kom inn í teiginn og Vicario var kominn úr markinu. Haaland var því í frábærum séns á að koma Man City í forystu en skotið framhjá markinu.
Doku átti skot í þverslá á 29. mínútu áður en Phil Foden kom Man City í 2-1 með góðu skoti eftir gott samspil frá Alvarez, Haaland og Doku.
Haaland kom sér í annað dauðafæri fimm mínútum síðar en setti boltann yfir markið. Ekki hans dagur.
Fjörið hélt áfram í þeim síðari. Vicario þurfti að taka á stóra sínum þegar aðeins átján sekúndur voru liðnar er Bernardo Silva tók gott skot, en varslan jafnvel betri.
Tottenham-menn neituðu að gefast upp í þessum leik. Giovani Lo Celso jafnaði metin á 68. mínútu með laglegu skoti eftir góða sókn áður en varamaðurinn Jack Grealish kom Man City aftur yfir á 81. mínútu eftir stoðsendingu Haaland.
Gestirnir, sem höfðu tapað þremur leikjum í röð, voru ekki á því að tapa fjórða leiknum. Sænski landsliðsmaðurinn Dejan Kulusevski bjargaði stigi með skalla úr teignum, sem hafnaði í slá og inn, þegar lítið var eftir.
Frábært stig hjá Tottenham í geggjuðum leik. Pep Guardiola og hans menn eflaust vonsviknir með niðurstöðuna, en liðið er nú í 3. sæti með 30 stig, þremur stigum frá toppnum. Tottenham er á meðan í 5. sæti með 27 stig.
Athugasemdir