Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mið 04. mars 2020 11:50
Elvar Geir Magnússon
Heimild: BBC 
Hver er þessi sextán ára Englendingur sem Dortmund vill fá?
Jude Bellingham, leikmaður Birmingham.
Jude Bellingham, leikmaður Birmingham.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Jude Bellingham, leikmaður Birmingham, er aðeins 16 ára og er of ungur til að mega gera atvinnusamning við félagið. Öryggisreglur gera að verkum að hann verður að hafa einkaherbergi þegar liðið fer í keppnisferðalög.

Bellingham verður 17 ára í sumar en hann varð yngsti leikmaður til að spila fyrir Birmingham í ágúst í fyrra. Hann hefur skorað fjögur mörk í Championship-deildinni, verið orðaður við stórlið í Evrópu og barn hefur verið skírt eftir honum!

Þýska blaðið Bild segir að Borussia Dortmund hafi gert samkomulag um 30,4 milljóna punda kaupverð á táningnum.

„Þetta er hans félag, hans fólk. Áhuginn á honum fer ekki framhjá okkur. Í leiknum gegn Middlesbrough nýlega var hálf Evrópa á vellinum!" segir Pep Clotet, stjóri Birmingham.

Sjá einnig:
Bellingham eins og ungur Steven Gerrard

Sumir fjölmiðlar hafa talað um að Bellington sé hæfileikaríkasti leikmaður Englands síðan Wayne Rooney kom fram á sjónarsviðið.

Hann hefur spilað yfir 2.000 mínútur í Championship-deildinni og verður hvíldur í kvöld þegar Birmingham mætir Leicester í bikarnum.

„Þegar hann kom upp í U12 ára liðið hjá okkur var eftirtektarvert hversu fljótur hann var að læra og hvaða áhrif hann hafði á æfingar og leiki," segir Kristjaan Speakman, stjóri akademíunnar hjá Birmingham.

„Hann hefur aldrei átt í vandræðum með að spila með eldri einstaklingum, meðal annars vegna þess að hann er svo snjall leikmaður."

Ekki heima í tölvuleikjum
Bellingham hefur verið fyrirliði U17 landsliðs Englendinga.

Birmingham hefur farið í fjölda viðtala við fjölmiðlateymi Birmingham en félagið vill ekki hleypa honum í almenna fjölmiðla á þessum unga aldri.

Hann er sagður klár ungur maður sem lærir félagsfræði þegar hann er ekki í fótboltanum.

„Ég geri mér grein fyrir mikilvægi menntunar og hversu mikið foreldrar mínir vilja að ég mennti mig," sagði Bellingham í viðtali. „Það heldur mér uppteknum í frítímanum svo ég er ekki bara heima að spila tölvuleiki."

Darren Carter, fyrrum leikmaður Birmingham og nú stuðningsmaður, hefur heillast af Bellingham innan sem utan vallar.

„Hvernig hann talar djúpt um leikfræði sýnir hversu snjall hann er. Maður gleymir því að hann er bara sextán ára," segir Carter.

Skírðu barnið sitt eftir honum
Bellingham býr með foreldrum sínum í Stourbridge, markaðsbæ rétt fyrir utan Birmingham. Faðir hans, Mark, var sóknarmaður sem lék í utandeildinni og þá er bróðir hans, Jobe, í Birmingham akademíunni og hefur spilað fyrir U15 lið Englands.

„Fjölskylda hans er mjög náin og hefur verndað hann og staðið við bakið á honum. Hlutirnir hafa gerst hratt. Það er ekki möguleiki á að aðlagast aðalliðsfótbolta svona snögtt án þess að hafa rosalega góðan stuðning í kringum þig. Leikmaðurinn er ótrúlega klókur og þroskaður miðað við aldur," segir Speakman.

Þrátt fyrir að vera kominn alfarið í aðallið Birmingham þá eyðir Bellingham samt tíma með jafnöldrum sínum í akademíunni.

„Hann hefur ekki spilað í bikarkeppni unglingaliða á tímabilinu en var með þeim í klefanum og fagnaði með félögunum þegar þeir komust áfram. Þannig strákur er hann. Hann vill alltaf hjálpa og sýna stuðning. Hann er fyrirmynd fyrir marga unga leikmenn í akademíunni okkar og höndlar alla þessa pressu ótrúlega vel."

Bellingham er einn mest spennandi ungi leikmaður England og hefur verið orðaður við Barcelona, Real Madrid og Bayern München í Evrópuboltanum og einnig við Liverpool, Manchester City og Manchester United í enska boltanum.

Bellingham var sjö ára þegar Birmingham var síðast í ensku úrvalsdeildinni, 2011. Hann er elskaður af stuðningsmönnum liðsins.

Paige og James McGonnell, stuðningsmenn Birmingham, komust að því að þau áttu von á dreng daginn sem Bellingham varð yngsti markaskorari félagsins. Þau ákváðu að skíra barnið eftir leikmanninum unga og var boðið að mæta með nýfæddan strákinn á æfingasvæðið að hitta Bellingham.

„Það var frábært að hitta hann, hann sagðist aldrei hafa haldið áður á ungabarni," segir Paige.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner