Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 05. mars 2021 17:30
Elvar Geir Magnússon
Hvernig er Sambandsdeild Evrópu og verður Liverpool þar?
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á næsta tímabili fer af stað ný Evrópukeppni hjá UEFA, Sambandsdeild Evrópu (e. Europa Conference League). Keppnin á að gefa smærri löndum Evrópu, Íslandi þar á meðal, fleiri Evrópuleiki félagsliða.

Þó keppnin sé C-deildar Evrópukeppni (á eftir Meistaradeildinni og Evrópudeildinni) verða lið úr fimm stærstu deildum Evrópu, eitt úr hverri, með í keppninni.

Það er mögulegt að ríkjandi Englandsmeistarar Liverpool fari í þessa nýju keppni en þeir eru sem stendur í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar.

184 lið munu koma við sögu í Sambandsdeildinni á hverju tímabili, að minnsta kosti eitt frá hverju af 55 aðildarlöndum UEFA.

Á Englandi mun sigurvegari deildabikarsins fá þátttökurétt í Sambandsdeildinni. En ef liðið sem vinnur þann bikar tryggir sér Evrópusæti með lokastöðu í deildinni, sem hefur verið í öllum tilfellum síðan 2013, mun liðið í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar fá Sambandsdeildarsætið.

Það sæti fer niður í sjöunda sætið ef að lið í topp sex vinnur FA-bikarinn, sem hefur verið í öllum tilfellum síðan Wigan vann óvænt 2013.

Hvað er Sambandsdeild UEFA?
Þriðja Evrópukeppnin gerir að verkum að liðum í Evrópudeildinni mun fækka. 32 lið munu spila í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar og liðum í Evrópudeildinni fækkar úr 48 í 32.

Hvernig er fyrirkomulagið?
Þrjár umferðir af forkeppni áður en kemur að umspili. Sigurvegarar umspilsins komast í riðlakeppnina ásamt þeim liðum sem tapa í umspili Evrópudeildarinnar.

Liðunum verður raðað í átta fjögurra liða riðla. Sigurvegari hvers riðils fer beint í 16-liða úrslit. Lið í öðru sæti munu mæta liðum sem falla úr Evrópudeildinni, liðunum sem enda í þriðja sæti í sínum riðli í Evrópudeildinni.

Hvað fá sigurvegarar keppninnar?
Sigurlið Sambandsdeildarinnar fær þátttökurétt í Evrópudeildinni á næsta tímabili. Þetta er í takt við það að sigurvegari Evrópudeildarinnar kemst í Meistaradeildina.

Hvenær verður spilað?
Eins og í Evrópudeildinni verða leikirnir spilaðir á fimmtudagskvöldum.

Hvað fær Ísland mörg sæti í keppninni?
Fimm stærstu deildir Evrópu fá einn fulltrúa hver. Deildir sem eru í 6. - 15. sæti á styrkleikalista UEFA fá tvo fulltrúa en þjóðir í 16. - 50. sæti fá þrjú lið. Þjóðir í sætum 51-55 fá svo tvo fulltrúa en Ísland er í 52. sæti.

Minnstu fótboltaþjóðirnar þurfa að fara í gegnum undankeppni til að eiga möguleika á að mæta stærri liðum.
Athugasemdir
banner
banner