mið 05. október 2022 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Xabi Alonso að taka við Leverkusen?
Xabi Alonso er líklegur kostur í stöðuna hjá Leverkusen
Xabi Alonso er líklegur kostur í stöðuna hjá Leverkusen
Mynd: Getty Images
Xabi Alonso, fyrrum leikmaður Liverpool og spænska landsliðsins, gæti verið að taka við Bayer Leverkusen í Þýskaland, en þetta herma heimildir ESPN.

Alonso, sem er fertugur, lagði skóna á hilluna fyrir fimm árum eftir að hafa spilað fyrir Real Sociedad, Liverpool, Real Madrid og Bayern München.

Sem leikmaður vann hann alla titla sem hægt er að vinna í Evrópuboltanum og með landsliði, en hann ákvað að snúa sér að þjálfun eftir ferilinn.

Alonso tók við þjálfun varaliðs Real Sociedad fyrir þremur árum og náði þar ágætis árangri áður en hann hætti hjá félaginu fyrr á þessu ári.

Fyrir tveimur vikum var Alonso orðaður við þjálfarastöðuna hjá Bayer Leverkusen í Þýskalandi og í gær greindi ESPN frá því að félagið væri alvarlega að íhuga það að reka Gerardo Seoane og ráða Alonso.

Leverkusen er í 17. sæti með aðeins einn sigur úr fyrstu átta leikjunum en liðið hefur verið með bestu liðum Þýskalands síðustu ár og úrslitin því verið mikil vonbrigði.

Thomas Tuchel var fyrsti kostur í þjálfarastöðuna en hann hafði ekki áhuga á að taka við starfinu. Því er Leverkusen að íhuga að fá Alonso, sem er sagður hafa gríðarlegan áhuga á verkefninu.
Athugasemdir
banner
banner