KSÍ hefur nú staðfest að karlalandsliðið mun leika tvo vináttulandsleiki í janúar. Leikirnir fara fram 13. og 17. janúar og eru utan hefðbundins FIFA glugga.
Þann 13. janúar mætir liðið Gvatemala og þann 17. janúar verður mótherjinn Hondúras. Báðir leikirnir fara fram á DRV Pink Stadium í Fort Lauderdale í Flórída.
Ísland hefur oft leikið vináttuleiki á borð við þessa í janúarmánuði. Hópurinn verður blanda af leikmönnum sem munu taka þátt í umspilinu í mars og svo leikmönnum sem munu fá tækifæri á að sýna sig og sanna fyrir Age Hareide.
Leikmenn sem spila í Skandinavíu munu bera upp þennan janúarhóp.
Stóra verkefni Íslands verður svo í mars. Ísland mætir Ísrael í undanúrslitum umspilsins fyrir Evrópumótið en sigurliðið leikur við Úkraínu eða Bosníu, hreinan úrslitaleik um að komast á EM.
Athugasemdir