Englandsmeistarar Manchester City fengu að njóta snilli belgíska landsliðsmannsins Kevin De Bruyne á nýjan leik er liðið batt enda á sjö leikja taphrinu en hann skoraði og lagði upp í fyrsta byrjunarliðsleik sínum síðan í september.
De Bruyne, sem hefur verið einn besti leikmaður Man City síðustu ár, hefur verið að glíma við erfið meiðsli.
Hann var í liðinu í fyrstu leikjum tímabilsins en meiddist og sneri ekki aftur fyrr en í byrjun nóvember.
Miðjumaðurinn hefur verið að fá nokkrar mínútur af bekknum í síðustu leikjum og fannst sparkspekingum skrítið að hann væri ekki að byrja leik. Töluðu margir um að einhver vandamál væru í gangi milli hans og Pep Guardiola.
Guardiola neitaði fyrir það á blaðamannafundi og kom De Bruyne síðan inn í liðið í gær og átti stórleik. Leikmaðurinn vísaði því sömuleiðis til föðurhúsanna eftir 3-0 sigurinn á Nottingham Forest.
„Þetta voru óþægileg meiðsli, bæði ráðgáta og púsluspil. Hægt og rólega er ég að verða betri. Ég gat spilað stóran hluta leiksins án þess að finna fyrir sársauka.“
„Þetta er mikill léttir. Flestir af okkur höfðu spilað mikið áður en við komum til Man City þannig ég hef spilað í fallbaráttu. Það getur verið miklu verra. Þetta hefur samt verið erfiður tími og við höfum ekki alveg verið upp á okkar besta og svo eru meiðsli og annað.“
„Vonandi var þessi dagurinn fyrsta skrefið að bætingu. Það er gott að breyta hreyfiaflinu. Í sumum leikjum sem við töpuðum voru kaflar þar sem við vorum alls ekki slæmir.“
„Ég veit að ýmislegt hefur verið sagt en það hafa aldrei verið nein vandamál milli mín og Pep. Hann veit að ég hef verið að glíma við erfiðleika. Þetta er sársaukafullt og óþægilegt en ég vil bara komast aftur á völlinn. Mér leið vel í byrjun tímabils og er núna að vinna að því koma mér og líkamanum í lag. Kannski verða hæðir og lægðir hjá mér frá þessu augnabliki, en ég vona auðvitað að ég geti snúið aftur án þess að finna of mikinn sársauka og þá verður þetta í lagi,“ sagði De Bruyne.
Athugasemdir