Man Utd tilbúið að hlusta á tilboð í Rashford og Martínez - Arteta vill Vlahovic - Ashworth gæti tekið til starfa hjá Arsenal
   þri 06. júní 2023 15:07
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Freysi um Kolbein: Var með fjárhagslega miklu betri tilboð en valdi rétt
Hrikalega vel gert sem nýr leikmaður í nýju landi.
Hrikalega vel gert sem nýr leikmaður í nýju landi.
Mynd: Getty Images
Ég tek ekki Íslendinga inn nema allir séu með.
Ég tek ekki Íslendinga inn nema allir séu með.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kom frá Dortmund.
Kom frá Dortmund.
Mynd: Dortmund
Kolbeinn Birgir Finnsson gekk í raðir Lyngby í Danmörku í janúarglugganum. Hann kom til félagsins eftir að hafa leikið með varaliði Dortmund árin á undan.

Hann hjálpaði Lyngby að halda sæti sínu í dönsku deildinni, byrjaði fyrstu tvo leikina hjá Lyngby á bekknum en byrjaði síðustu þrettán leiki liðsins. Kolbeinn, sem er 23 ára gamall, spilaði úti vinstra megin, oftast í vinstri vængbakverði. Hann er með skráðar þrjár stoðsendingar og eitt mark á Transfermarkt fyrir Lyngby.

Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby, var til viðtals hér á Fótbolta.net og var hann spurður út í Kolbein.

Varstu lengi að hugsa hvort þú ættir að taka hann inn eða var það borðleggjandi?

„Fyrir mér var það borðleggjandi og var búið að vera það í eitt og hálft ár. Ég var búinn að reyna fá hann áður og svo gekk það ekki upp. Svo seljum við Adam Sörensen til Bodö/Glimt, vissum að hann myndi fara annað hvort í janúarglugganum eða núna í sumar. Þegar klúbburinn tók tilboðinu frá Bodö var Kolli efstur á lista hjá okkur."

„En ég tek ekki Íslendinga nema þeir séu settir saman á þann hátt og ég vil að þeir séu settir saman. Þannig er Kolli og þess vegna efaðist ég aldrei. Ég vildi að allt starfsteymið mitt yrði með í því og þeir voru það svo sannarlega og að sama skapi þeir sem sjá um „recruitment" hjá klúbbnum. Ég tek ekki Íslendinga inn nema allir séu með."

„Við náðum að klára þann díl og hann er búinn að vera ógeðslega góður í öllum þáttum leiksins. Auðvitað hefur hann átt einhverjar sveiflur en heilt yfir er hann búinn að vera stórkostlegur, mikið hrós til hans. Hann kemur inn og fyllir skarð sem manns sem var uppáhald allra stuðningsmanna, uppalinn í klúbbnum; geðveikt öflugur leikmaður og við finnum ekki fyrir því. Það er ekki auðvelt. Hrikalega vel gert sem nýr leikmaður í nýju landi."


Var flókið að sannfæra Kolbein um að koma?

„Nei, það var ekkert rosalega flókið, áttum bara heiðarleg og góð samtöl. Ég var með plan fyrir hann, en fjárhagslega erum við ekki sterkastir á svellinu. Hann var með einhver önnur fjárhagslega miklu betri tilboð og þurfti á endanum að gera upp við sig hvað hann vildi; betri fjárhæð akkúrat núna eða upplifun sem hann gat ekki fengið neins staðar annars staðar. Sem betur fer valdi hann rétt."

Sævar Atli Magnússon og Alfreð Finnbogason eru einnig hjá Lyngby. Eiga þeir samtöl við Kolbein til að reyna sannfæra hann?

„Ég held Kolli hafi talað við þá, ég bið ekkert Sævar og Alfreð um að tala við hann, held að það hafi verið öfugt," sagði Freysi.

Sjá einnig:
Kolbeinn og Andri Fannar æfa með A-landsliðinu
Leið næstum yfir Freysa - „Ótrúlega stoltur að hafa staðið með sjálfum mér"
Athugasemdir
banner
banner
banner