Arsenal ætlar að gera janúartilboð í Douglas Luiz - City og Liverpool hafa líka áhuga - Guehi efstur á óskalista Man Utd
   þri 06. júní 2023 22:00
Ívan Guðjón Baldursson
Hermann: Ekkert sem kemst nálægt því að vinna enska bikarinn
watermark
Mynd: Getty Images
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Hermann Hreiðarsson fór víðan völl í ítarlegu viðtali við Sky Sports á dögunum þar sem hann rifjaði upp gamla tíma í enska boltanum og talaði meðal annars um draum sinn um að stýra fótboltafélagi á Englandi.


Hermann skipti beint frá ÍBV yfir til Crystal Palace sumarið 1997 og það tók hann smá tíma að aðlagast enska boltanum komandi frá Íslandi.

„Ég man eftir fyrsta leiknum á Englandi, þegar ég sat á bekknum gegn Everton á Goodison Park. Ég var skælbrosandi því ég hafði aldrei séð neitt þessu líkt, stuðningsmennirnir voru frábærir og ástríða leikmanna skein í gegn. Svo var leikurinn ótrúlega hraður, þetta var mögnuð lífsreynsla," sagði Hemmi.

„Þetta var risastökk, ég fór beint úr áhugamannadeild yfir í atvinnumennskuna. Öll umgjörðin í kringum fótboltann var allt öðruvísi en því sem ég var vanur. Ég tók strax eftir því að ég þurfti að bæta mig þannig ég tók ákvörðun um að tileinka lífi mínu fótbolta. Ég varði gríðarlega miklum tíma í aukaæfingar og reyndi mitt besta til að bæta mig og nýta þetta ótrúlega tækifæri. Það borgaði sig að lokum."

Hemmi tók ekki þátt í leiknum gegn Everton þann daginn en spilaði í 30 deildarleikjum á sínu fyrsta úrvalsdeildartímabili, en Crystal Palace féll niður um deild og skipti Hemmi yfir til Brentford sem var þá í þriðju deildinni. Hann fór upp um deild með Brentford og var svo fenginn aftur í úrvalsdeildina til að spila fyrir Wimbledon. Hemmi féll aftur með Wimbledon og átti eftir að spila fyrir þrjú önnur úrvalsdeildarfélög á ferlinum, þar sem hann afrekaði að falla niður í B-deildina með þeim öllum.

Hemmi átti eftir að spila fyrir Ipswich, Charlton og Portsmouth en í heildina lék hann 332 úrvalsdeildarleiki á ferlinum.

„Það eru ótrúleg forréttindi að hafa fengið að spila í úrvalsdeildinni. Gæðamesta liðið sem ég spilaði fyrir var eflaust Portsmouth, þar sem ég myndaði varnarlínu ásamt Glen Johnson, Sol Campbell og Sylvain Distin með David James fyrir aftan okkur. Við héldum oft hreinu og svo vorum við með gæðamikla leikmenn á borð við Peter Crouch, Jermain Defoe, Niko Kranjcar og Sulley Muntari í hópnum."

Hemmi varð bikarmeistari með Portsmouth og rifjaði þá tíma upp. „Við vorum staðráðnir í að vinna einhvern titil þetta árið og þegar við slógum ógnarsterkt lið Manchester United út í 8-liða úrslitum og Chelsea tapaði fyrir Barnsley á sama tíma öðluðumst við mikla trú. Þetta er hápunktur ferilsins hjá mér, það er ekkert sem kemst nálægt því að vinna enska bikarinn."


Athugasemdir
banner
banner
banner