Mikel Arteta þjálfari Arsenal er gríðarlega spenntur fyrir undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar sem fer fram í kvöld, þar sem lærisveinar hans heimsækja PSG.
Arsenal tapaði fyrri leiknum naumlega á heimavelli, 0-1, og þarf því sigur á Parc des Princes í kvöld.
„Ef við viljum komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þá þurfum við að eiga einstakan leik. Við verðum að vera upp á okkar besta þegar við mætum þessum andstæðingum í París. Allt sem við höfum gert á tímabilinu hefur leitt að þessari stundu. Það er undir okkur komið að nýta tækifærið," sagði Arteta á fréttamannafundi í gær.
„Við viljum bæta okkur enn frekar sem lið og skrifa okkur á spjöld sögunnar. Það er tækifærið sem við erum með fyrir framan okkur. Við erum einum sigri frá úrslitaleiknum og það er það eina sem skiptir máli. Það er óþarfi að tala of mikið um leikinn, það sem skiptir máli er að strákarnir sýni sínar bestu hliðar þegar leikurinn verður flautaður á. Við verðum að sigra leikinn til að komast í úrslit. Það er bara þannig. Til þess að geta sigrað verðum við að spila betur heldur en við gerðum í fyrri leiknum.
„Við vitum að við höfum hæfileikana til að gera það og núna er kominn tími fyrir okkur til að skrifa söguna."
Arteta telur mjög lítinn gæðamun vera á liðunum tveimur eftir fyrri viðureignina á Emirates. Þó má búast við að PSG verði enn sókndjarfari á heimavelli.
„Við áttum ekki skilið að tapa fyrri leiknum en við drógum mikilvægan lærdóm af honum. Við sáum hversu lítill munur er á liðunum, það eru minnstu smáatriðin sem munu koma til með að skipta mestu máli."
Athugasemdir