
Sést í Nemanja Bilbija, fyrirliða Zrinjski, í bakgrunni á þessari mynd af Jóa Berg á Laugardalsvelli.
„Við höfum spilað við þá áður. Það er oft þannig að maður fylgir liðunum sem maður mætir aðeins eftir, sér hvernig þeim gengur. Það var nú talað um á sínum tíma að það hefði verið algjör katastrófa að detta út á móti þeim, en í kjölfarið á því að þeir slógu okkur út þá töpuðu þeir naumlega í Evrópudeildarumspilinu á móti LASK Linz frá Austurríki, fara í riðil í Sambandsdeildinni, byrja á því að vinna AZ Alkmaar og gera svo jafntefli við Aston Villa," segir Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, við Fótbolta.net.
Breiðablik mætir Zrinjski Mostar í 3. umferð forkeppninnar í Evrópudeildinni í kvöld. Um fyrri leik liðanna í einvíginu er að ræða, spilað er í Mostar í Bosníu í kvöld og seinni leikurinn fer fram á Kópavogsvelli eftir viku. Liðin mættust á þessu stigi fyrir tveimur árum, þá vann Zrinjski heimaleikinn 6-2 og Breiðablik vann seinni leikinn 1-0, samanlagt því 6-3. Dóri hélt áfram:
Breiðablik mætir Zrinjski Mostar í 3. umferð forkeppninnar í Evrópudeildinni í kvöld. Um fyrri leik liðanna í einvíginu er að ræða, spilað er í Mostar í Bosníu í kvöld og seinni leikurinn fer fram á Kópavogsvelli eftir viku. Liðin mættust á þessu stigi fyrir tveimur árum, þá vann Zrinjski heimaleikinn 6-2 og Breiðablik vann seinni leikinn 1-0, samanlagt því 6-3. Dóri hélt áfram:
Lestu um leikinn: Zrinjski Mostar 0 - 0 Breiðablik
„Ég ætla samt ekki að fara tala þá upp sem eitthvað óvinnandi vígi, alls ekki. Þeir ströggluðu núna á móti liði frá San Marinó, með fullri virðingu fyrir því smáríki, þá hafa lið þaðan ekki náð langt í Evrópu hingað til. Zrinjski var nýbúið á sínu tímabili þá. Á sama tíma þá duttu meistararnir í fyrra (23/24), Borac Banja Luka, út á móti liði frá Andorra, andorrska liðið reyndar búið að gera mjög góða hluti. En það er allt sem segir okkur að ef við hittum á daginn okkar, erum 'on it', spilum agaðan og góðan leik, sérstaklega hérna úti, þá erum við í frábærri stöðu. Við höfum góða tilfinningu og trú á því að við getum slegið þá út, og það er eina markmiðið að vinna þetta einvígi og fara í umspilið í Evrópudeildinni, við ætlum okkur til Hollands eða Sviss," segir þjálfarinn en ljóst er að sigurvegarinn úr einvígi Breiðabliks og Zrinjski mætir sigurvegaranum úr einvígi Servette og Utrecht í umspilinu um sæti í sjálfri Evrópudeildinni.
Töluverð leikmannavelta og þjálfarabreytingar
„Í undirbúningnum horfi ég ekki í leikina fyrir tveimur árum. Við spiluðum við þá 2023, síðan þá eru þeir held ég búnir að skipta fimm sinnum um þjálfara; einn búinn að þjálfa þá tvisvar, og þeir voru að skipta um þjálfara í síðustu viku. Það sýnir kannski bara metnaðinn hjá félaginu, þeir sækja Igor Stimac fyrrum landsliðsþjálfara Króatíu, þannig þeir eru ekkert að grínast."
„Það er líka töluverð leikmannavelta, nokkrir leikmenn sem eru ennþá frá því við mættum þeim síðast. Við horfum langmest í að horfa í hvað þeir hafa verið að gera upp á síðkastið, en það flækir auðvitað aðeins í leikgreiningu og öðru þegar nýr þjálfari tekur við. Þetta verður fyrsti leikurinn hans undir hans stjórn, því að þrátt fyrir að deildin í Bosníu sé hafin, þá spila Evrópuliðin í Bosníu, eins og í flestum smærri deildum Evrópu, enga deildarleiki á meðan Evrópubaráttan er í gangi. Það eru því engir leikir sem við höfum með þeim undir hans stjórn og við rennum svolítið blint í sjóinn. Það hafa líka komið þrír nýir leikmenn frá því þeir spiluðu gegn Slovan Bratislava í síðustu viku. Einbeitingin er alltaf mikill á okkur sjálfum, en ennþá meiri í þetta skiptið, þetta er pínu óvissuferð."
Með öflugan framherja
En hverju býstu við frá þeim?
„Þetta er lið sem vill hafa boltann, vilja spila í gegnum miðjuna, geta verið mjög beinskeyttir líka, farið út í kantana og komast í fyrirgjafarstöður. Þeirra stærsta nafn er Nemanja Bilbija sem er 34 ára bosnískur landsliðsmaður, mikill markaskorari sem spilaði m.a. á Laugardalsvelli 2023. Þeir leita mikið að honum, reyna koma honum í færi."
„Þeir hafa verið mjög trúir sínu, geta verið kærulausir á boltann og við þurfum að vera klárir ef þeir bjóða okkur upp á eitthvað. Þeir hafa ekki spilað með sama hafsentaparið í síðustu fjórum leikjum í Evrópu, litast af smá rótleysi og meiðslum. Þetta er lið sem vill halda í boltann á heimavelli og sækja á mörgum mönnum. Þeir eru oft fáliðaðir til baka og við ættum að geta sært þá."
Tæki Dóri jafnteflinu?
Menn vilja alltaf vinna leikinn, en væru jafntefli flott úrslit?
„Okkar markmið er að fara til Íslands með bæði frammistöðu og niðurstöðu sem er þess eðlis að við séum í góðri stöðu til að slá þá út á heimavelli. Til þess þurfum við að vera trúir okkar gildum og spila góðan fótbolta, en við þurfum líka að verja markið okkar. Við mætum aldrei neitt til þess að spila upp á jafntefli eða eitthvað slíkt. Niðurstaða þar sem við erum í góðri stöðu til að slá þá út á heimavelli er markmiðið."
Án tveggja í dag
Blikar verða án þeirra Antons Loga Lúðvíkssonar og Andra Rafns Yeoman í leiknum.
„Menn eru almennt ferskir, við missum Anton Loga út eftir KR leikinn og hann er enn frá. Andri Rafn er líka ennþá frá. Aron Bjarnason fékk aðeins í kálfann á móti Lech Poznan, ofan á þau nárameiðsli sem hann hafa truflað hann. Þeir eru að jafna sig, aðrir eru bara mjög ferskir. Aron verður í hópnum í leiknum og í það minnsta klár í leikinn á móti Val á sunnudaginn."
Geta ekki hugsað um leikinn gegn Val
Það eru þrír leikir á viku núna, mjög mikilvægir Evrópuleikir og svo toppbaráttuslagur gegn Val í Bestu deildinni á sunnudag. Er leikurinn gegn Val eitthvað á bakvið eyrað hjá Dóra?
„Nei, við bara getum ekki hugsað þannig og höfum aldrei gert það, ekki í einum einasta leik. Auðvitað róterast eitthvað í liðinu á milli leikja, 2-3 breytingar til þess að það sé að stórum hluta ferskt í hverjum einasta leik. Það er þá meira náttúruleg hreyfing á liðinu heldur en að vera hvíla einhverja hér og þar til þess að þeir séu klárir í einhverjum öðrum leik. Það er bara einbeiting á leikinn gegn Zrinjski, allt skilið eftir á vellinum og svo er bara endurheimt fyrir leikinn gegn Val."
Sama upplifun og beint eftir leik
Breiðablik gerði 1-1 jafntefli við KA á sunnudaginn. Er eitthvað sem Dóri tekur úr þeim leik eftir að hafa skoðað hann betur?
„Upplifunin er eiginlega sú sama og beint eftir leik. Við spiluðum hrikalega kraftmikinn og góðan fyrri hálfleik. Við komum okkur í stöður sem eiga að vera nægilega góðar til að gera nánast út um leikinn. Við áttum aldrei að fara inn í hálfleikinn með jafna stöðu. KA menn voru góðir stóran hluta af seinni hálfleik, en svo síðustu 10-15 mínúturnar fórum við að herja á þá aftur og fengum góð tækifæri til að vinna leikinn. Við hefðum þurft að vera betri í lengri tíma og gera betur úr stöðunum í fyrri hálfleik," segir Dóri.
Leikurinn í kvöld verður í beinni útsendingu á SÝN Sport og verður textalýst hér á Fótbolti.net. Leikurinn hefst klukkan 18:00 að íslenskum tíma.
Athugasemdir