Miðjumaðurinn Tómas Bent Magnússon var á dögunum seldur til Hearts í Skotland eftir að hafa staðið sig frábærlega með Val hingað til í sumar.
Tómas Bent kom í Val fyrir tímabilið eftir að hafa leikið vel með Eyjamönnum í Lengjudeildinni síðasta sumar. Núna í sumar hefur hann blómstrað á Hlíðarenda og hefur fengið skemmtilegt skref til Skotlands.
Tómas Bent kom í Val fyrir tímabilið eftir að hafa leikið vel með Eyjamönnum í Lengjudeildinni síðasta sumar. Núna í sumar hefur hann blómstrað á Hlíðarenda og hefur fengið skemmtilegt skref til Skotlands.
Það er óvænt að hann sé farinn út í atvinnumennsku svona stuttu eftir að hafa gengið til liðs við Val en Túfa, þjálfari liðsins, var gríðarlega ánægður með Tómas. Hann hrósaði honum í hástert í útvarpsþættinum Fótbolti.net á dögunum.
„Ég segi við hann að ég væri búinn að horfa á fullt af klippum af honum þar sem hann var ekki byrjaður að spila þegar ég var síðast á Íslandi. Hann spilaði með ÍBV þegar ég var úti. Ég sagði við hann að hann þyrfti að æfa með okkur í tvær vikur og hann var klár í það," sagði Túfa.
„Eftir þrjár æfingar hringdi ég í Björn Steinar (formann knattspyrnudeildar Vals) og sagði að við þyrftum að semja við þennan gæja."
Túfa segir að Tómas sé með frábæran persónuleika og hann sé leikmaður sem sé tilbúinn að gefa allt fyrir liðið.
„Hann hefur eiginleika sem eru að týnast í nútímafótbolta hjá nýrri kynslóð þar sem allir vilja vera geggjaðir að halda á lofti, klobba og taka skæri. Ég er með tvo stráka heima sem eru alltaf í því. Þú teiknar verkefni upp fyrir Tómas í hverjum leik og hann fer eftir því sem þú vilt að hann geri. Þú ert ekki með marga leikmenn í dag sem eru til í að fórna öllu og gera þetta nákvæmlega."
„Hann þurfti að vinna sér inn virðingu í liðinu. Það kemur einhver gæi af miðjunni hjá ÍBV en á undan því hafði Valur sótt Gylfa Sig, Aron Jó og fleiri. Þetta var ekki auðvelt fyrir hann en hann fékk þvílíkan stuðning frá okkur og við höfðum alltaf trú á honum. Í byrjun tímabils var ég alltaf að taka hann til hliðar og segja við hann að hans tími myndi koma. Hann var alltaf klár, það þurfti ekki að spyrja hann tvisvar."
Túfa segir að það sé erfitt að missa Tómas en hann sé mjög ánægður fyrir hans hönd.
„Hann var alveg geggjaður og mjög flottur í þessum Evrópuleikjum sem er stærsta ástæðan fyrir því að hann er seldur. Ég óskaði honum góðs gengis en ég sagði við hann að ég gæti ekki fagnað því of mikið að missa hann. Yfirleitt er maður enn meira glaður þegar svona týpur og persónuleikar fá verðlaun fyrir það sem þeir hafa verið að gera. Ég er þvílíkt ánægður fyrir hans hönd," sagði Túfa en hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir