Newcastle reynir við Guehi og Sesko - Sesko tilbúinn að fara til Newcastle - Liverpool skoðar Íra
   þri 05. ágúst 2025 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Vangaveltur um félagaskipti Tómasar Bents
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Skrifaði undir þriggja ára samning hjá Hearts.
Skrifaði undir þriggja ára samning hjá Hearts.
Mynd: Hearts
Valsmenn munu sakna Tómasar.
Valsmenn munu sakna Tómasar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Algjör lykilmaður í langri sigurhrinu Vals.
Algjör lykilmaður í langri sigurhrinu Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Velgengnin hófst fyrir alvöru með góðum leik í Vestmannaeyjum.
Velgengnin hófst fyrir alvöru með góðum leik í Vestmannaeyjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Byrjaði fyrsta leik í deild en var svo á bekknum í næstu leikjum.
Byrjaði fyrsta leik í deild en var svo á bekknum í næstu leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjálpaði ÍBV að vinna Lengjudeildina í fyrra.
Hjálpaði ÍBV að vinna Lengjudeildina í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Tómas Bent Magnússon kom inn á sem varamaður hjá Hearts í gær, en fyrr sama dag hafði hann fengið leikheimild með liðinu eftir að sala hans frá Val var staðfest. Það gerist rétt um þremur árum frá því að hann var lánaður í KFS frá ÍBV. Hlutirnir geta gerst hratt í boltanum.

Tómas kom til Vals frá ÍBV fyrir áramót, kom fyrst til æfinga en eftir að hafa staðið sig vel á þeim sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, við stjórnina að semja þyrfti við Tómas - og það var gert. Tómas var kominn á æfingar hjá Val þar sem hann fékk ekki leikheimild með Harrogate Town í ensku D-deildinni.

Fæstir bjuggust við því að Tómas yrði lykilmaður hjá Val. Hann var á leið í samkeppni við Aron Jóhannsson, Birki Heimisson, Bjarna Mark Antonsson inn á miðsvæðinu og ofan á það kom Marius Lundemo frá Noregi. Hermann Hreiðarsson, sem þjálfaði Tómas hjá ÍBV, trúði því kannski að Tómas myndbi blómstra, allavega miðað við viðtal sem hann fór í hjá Dr. Football í vetur þar sem hann hrósaði Tómasi gríðarlega og viðurkennir undirritaður að hann keypti alls ekki það hrós þá, en það er allavega örlítið skiljanlegra núna eftir að hafa séð Tómas hjá Val.

Hemmi sagði að Tómas væri næst besti leikmaður sem hann hefði séð spila með ÍBV, risastór ummæli. „Vinnan sem hann skilar og hvað hann leggur sig allan í þetta, Eyjahjartað; dugnaður, barátta og alvöru geðveiki," sagði Hemmi um frænda sinn.

Tómas byrjaði alla leikina í Reykjavíkurmótinu og Lengjubikarnum (nema tvo þar sem hann var ekki í hóp) og byrjaði fyrsta leik í Bestu deildinni, greinilega ánægja með hann hjá þjálfarateyminu. Þetta var þó ekki bara dans á rósum hjá Tómasi. Hann var á bekknum í næstu fimm leikjum Vals, kom inn á sem varamaður. Svo tók við mánuður frá vegna meiðsla. Hann sneri svo til baka í byrjunarliðið gegn ÍBV í bikarnum, Birkir, Aron og Lundemo meiddir, og við tók átta leikja sigurhrina, þar sem Eyjamaðurinn blómstraði.

Hann býr yfir mikilli hlaupagetu og skilning á fótbolta, hann var í æfingahópi U21 landsliðsins á sínum tíma, en lék þó ekki með liðinu, menn hafa vitað af honum. Hann var einn allra besti leikmaður Íslandsmótsins í sex vikur, skoraði mikilvæg mörk í Evrópu og er ekki orðinn 22 ára. Skoska félagið Hearts tók eftir því.

Hearts, eða Heart of Midlothian F.C., er í Edinborg, félagið hefur fjórum sinnum orðið skoskur meistari (síðast 1960) og átta sinnum bikarmeistari (síðast 2012). Liðið komst í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar á síðasta tímabili og endaði í sjöunda sæti skosku deildarinnar.

Hearts hljómar kannski við fyrstu sýn ekki sem neitt risastórt skref, en þetta er mikið tækifæri, mun fleiri augu eru á Hearts heldur en Val, og ef leikmenn standa sig vel þar, er möguleiki á einhverju ennþá stærra.

Það er ljóst að Valur fær upphæð frá skoska félaginu sem, án þess að gera lítið úr því, sem er enginn leikbreytir fyrir Val. Valur er vel stætt félag og í stóru myndinni er stærra að vinna titla en að fá 20 milljónir í kassann (óstaðfest upphæð). En það er þetta með orðsporið, og stefnu félagsins.

Íslenska deildin er þróunardeild, þar eiga okkar efnilegustu leikmenn að fá tækifæri ef þeir eru ekki þegar farnir erlendis þegar þeir eru tilbúnir í fullorðinsbolta. Valur hefur verið duglegt við að kaupa unga og efnilega leikmenn síðastliðið ár en einungis Tómas hefur brotið sér leið inn í liðið og náð að láta ljós sitt skína. Lúkas Logi Heimisson hefur átt fínt tímabil, en þau kaup eru eldri.

Síðustu ár hefur Valur fengið inn Valgeir Lunddal Friðriksson og Hlyn Frey Karlsson. Valgeir kom frá Fjölni og á sínu öðru tímabili blómstraði hann og var seldur í sænsku úrvalsdeildina. Hlynur kom úr unglingafótbolta á Ítalíu, stimplaði sig strax inn og tæpu ári seinna var hann mættur út í atvinnumennsku.

Heildarmyndin er alls ekki sú versta hjá Val, en menn eru gjarnir á að horfa á núið og sjá menn eins og Andi Hoti, Stefán Gísla Stefánsson, Birki Jakob Jónsson, Kristján Odd Kristjánsson og Jakob Franz Pálsson í takmörkuðum hlutverkum - Jakob aðeins kominn í stærra hlutverk að undanförnu.

Það er mikilvægt fyrir Val að sýna að nokkuð ungur leikmaður getur gengið í raðir félagsins, gripið tækifærið þegar stærra félag erlendis vill fá þann leikmann þá stendur félagið ekki í vegi fyrir leikmanninum. Það gæti líka hafa verið samið á þeim forsendum að tilboð erlendis frá yrði samþykkt.

Í vor kom umboðsmaðurinn Bjarki Gunnlaugsson í viðtal hjá Dr. Football þar sem hann útskýrði tenginguna við Breiðablik og Víking, þau lið sem hafa náð bestum árangri síðustu ár.

„Það er af því að þau félög eru að sinna okkar leikmönnum. Segjum að leikmaður sé að koma aftur til Íslands eftir að hafa verið í akademíu erlendis, þá leitar maður til klúbba sem maður getur treyst. Ég gat náttúrulega treyst bróður mínum, það segir sig sjálft, og svo er Breiðablik með frábæra sögu. Valur var ekkert með geggjaða sögu á þeim tíma, að ungir leikmenn kæmu og spiluðu yfir höfuð. Auðvitað leitar maður í þessa klúbba sem hafa reynst okkur vel," sagði Bjarki.

Það hefði ekki verið góður stimpill á Val ef félagið hefði staðið í vegi fyrir Tómasi. Ákvörðunin var samt eflaust ekki auðveld, upphæðin er ekkert svakaleg og Valur bæði á toppi deildarinnar, á leið í bikarúrslit og í miðju Evrópueinvígi þegar viðræðurnar voru í gangi. Sigur í bikarúrslitaleik tryggir hærri upphæð en þá sem Valur fær greitt fyrir Tómas og sömuleiðis að vinna deildina. Það er auðvitað ekkert gefið að Valur vinni ekki þessa titla úr þessu - eða myndi vinna þá með Tómas innanborðs - en hann var allavega að spila virkilega vel eins og komið var inn á hér að ofan, og gengi Vals gott.

Svo er það leikmaðurinn sjálfur, hvað vill hann og hvernig hann sér hann þetta allt saman? Er þetta TÆKIFÆRIÐ, væri hægt að bíða og sjá hvað kæmi eftir tímabilið? Það ætti að vera stórt að vinna titil, sama þótt það sé á litla Íslandi, vera jafnvel lykilmaður í liði sem klárar deildar- og bikartitil. En kæmi Hearts í janúar? Það er erfitt að segja, og mjög ólíklegt í raun. Hearts er spennandi tækifæri ef horft er á heildarmyndina og Valur gerir rétt með því að samþykkja tilboðið. Hefði verið hægt að fá hærri upphæð? Mögulega, en þá kannski hefði Hearts labbað í burtu og Tómas setið eftir ósáttur.
Athugasemdir
banner