Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 07. september 2019 17:54
Brynjar Ingi Erluson
Undankeppni EM: Öruggur sigur á Moldóvum
Icelandair
Kolbeinn SIgþórsson fagnaði vel og innilega marki sínu
Kolbeinn SIgþórsson fagnaði vel og innilega marki sínu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland 3 - 0 Moldóva
1-0 Kolbeinn Sigþórsson ('31 )
2-0 Birkir Bjarnason ('55 )
3-0 Jón Daði Böðvarsson ('77 )

Íslenska karlalandsliðið vann Moldóva 3-0 á Laugardalsvellinum í kvöld en leikið var á Laugardalsvelli. Ísland er í efsta sæti riðilsins með 12 stig.

Það var ljóst frá byrjun leiksins í hvað stefndi en íslenska liðið sótti án afláts og átti nokkur góð færi í upphafi leiksins.

Birkir Bjarnason fékk tvö fín færi um miðjan fyrri hálfleik. Fyrst átti hann skot rétt framhjá eftir hornspyrnu. Stuttu síðar átti Aron Einar Gunnarsson frábæra sendingu á Birki en Alexei Koselev, markvörður Moldóva, varði vel frá honum.

Kolbeinn Sigþórsson hefur leikið vel með AIK undanfarna mánuði en hann byrjaði í dag og þakkaði traustið. Hann kom Íslandi yfir á 31. mínútu eftir laglega hælsendingu Jóns Daða Böðvarssonar. Gott vinstrifótar skot í vinstra hornið.

Þetta var fyrsta mark Kolbeins fyrir Ísland frá því hann skoraði gegn Frökkum í 8-liða úrslitum EM fyrir þremur árum. Kærkomið mark.

Íslenska liðið hélt áfram að sækja í þeim síðari og bætti Birkir við öðru marki á 55. mínútu. Ari Freyr Skúlason átti hornspyrnu á kollinn á Ragnari Sigurðssyni sem kom knettinum á markið en Koselev varði það út á Birki sem skoraði örugglega.

Birkir var nálægt því að bæta við öðru marki en hann skallaði þá fyrirgjöf frá Gylfa Þór Sigurðssyni yfir markið.

Það var svo Jón Daði Böðvarsson sem gerði algerlega út um leikinn en Ari Freyr var þá með boltann vinstra megin í teignum, kom boltanum fyrir en í fyrstu var haldið að Victor Mudrac hefði gert sjálfsmark. Jón Daði var þá skráður fyrir markinu á endanum og öruggur sigur í hús.

Lokatölur 3-0 á Laugardalsvelli. Ísland er í efsta sæti H-riðils með 12 stig en Frakkland og Tyrkland fylgja fast á eftir með 9 stig. Frakkland mætir Albaníu klukkan 18:45 og á sama tíma mætast Tyrkland og Andorra.
Athugasemdir
banner
banner
banner