Spánverjar heimsóttu Tyrki í stórleik kvöldsins í undankeppni Evrópuþjóða fyrir HM og gjörsamlega rúlluðu yfir heimamenn.
Mikel Merino miðjumaður Arsenal skoraði þrennu í leiknum og þá átti Mikel Oyarzabal stoðsendingaþrennu. Pedri skoraði tvö mörk og gaf Lamine Yamal tvær stoðsendingar í stórsigrinum.
Lokatölur urðu 0-6 fyrir Spán sem er með sex stig eftir tvær fyrstu umferðirnar í undankeppninni. Tyrkir eru með þrjú stig eftir sigur í Georgíu í fyrstu umferð.
Belgar unnu sinn leik líka 6-0 en þeir voru á heimavelli gegn Kasakstan. Kevin De Bruyne og Jeremy Doku skoruðu sitthvora tvennuna og gáfu sitthvora stoðsendinguna.
Charles De Ketelaere og Alexis Saelemaekers, sem leika báðir í Serie A á Ítalíu, gáfu einnig tvær stoðsendingar á haus.
Belgía er í öðru sæti J-riðils, með 10 stig eftir 4 umferðir. Liðið er einu stigi á eftir toppliði Norður-Makedóníu og með leik til góða.
Þýskaland tók þá á móti Norður-Írlandi eftir mikið vonbrigðatap gegn Slóvakíu í fyrstu umferð. Lærisveinar Julian Nagelsmann tóku forystuna snemma leiks þegar Serge Gnabry skoraði en áttu í miklum erfiðleikum með að skapa sér góð færi eftir það.
Norður-Írar jöfnuðu metin og var staðan 1-1 eftir dapran fyrri hálfleik Þjóðverja.
Heimamenn skiptu þó um gír í seinni hálfleik og tóku öll völd á vellinum. Þeir sköpuðu sér nokkur góð færi áður en Nadiem Amiri kom þeim yfir á nýjan leik, skömmu áður en hinn fokdýri Florian Wirtz skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu.
Þjóðverjar eru í öðru sæti í riðlinum eftir að Slóvakar rétt mörðu Lúxemborg í kvöld. Slóvakar unnu 0-1 og eru með sex stig eftir tvær fyrstu umferðirnar. Tomas Rigo, leikmaður Stoke City, skoraði eina mark leiksins á 90. mínútu.
Heimamenn í liði Lúxemborg, sem töpuðu í Norður-Írlandi í fyrstu umferð, voru sterkari aðilinn gegn Slóvökum og héldu að þeir hefðu tekið forystuna á 58. mínútu. Það var þó ekki dæmt mark vegna naumrar rangstöðu eftir athugun í VAR-herberginu.
Lúxemborg er því án stiga eftir tvær fyrstu umferðirnar.
Robert Lewandowski skoraði að lokum og lagði upp í gífurlega dýrmætum sigri Pólverja gegn Finnlandi í G-riðli. Liðin eru í harðri baráttu um annað sæti riðilsins. Finnar unnu fyrri viðureign þjóðanna á heimavelli en Pólverjar svöruðu heldur betur fyrir sig í kvöld.
Pólland situr í öðru sætinu eftir þennan stigur, með 10 stig eftir 5 umferðir. Þremur stigum meira heldur en Finnland. Holland trónir á toppi riðilsins með 10 stig og leik til góða.
Tyrkland 0 - 6 Spánn
0-1 Pedri ('6 )
0-2 Mikel Merino ('22 )
0-3 Mikel Merino ('45 )
0-4 Ferran Torres ('53 )
0-5 Mikel Merino ('57 )
0-6 Pedri ('62 )
Belgía 6 - 0 Kasakstan
1-0 Kevin De Bruyne ('42 )
2-0 Jeremy Doku ('44 )
3-0 Nicolas Raskin ('51 )
4-0 Jeremy Doku ('60 )
5-0 Kevin De Bruyne ('84 )
6-0 Thomas Meunier ('87 )
Þýskaland 3 - 1 Norður-Írland
1-0 Serge Gnabry ('7 )
1-1 Isaac Price ('34 )
2-1 Nadiem Amiri ('69 )
3-1 Florian Wirtz ('72 )
Lúxemborg 0 - 1 Slóvakía
0-1 Tomas Rigo ('90 )
Pólland 3 - 1 Finnland
1-0 Matty Cash ('27 )
2-0 Robert Lewandowski ('45 )
3-0 Jakub Kaminski ('55 )
3-1 Benjamin Kallman ('88 )
Athugasemdir