
Sverrir Ingi Ingason gaf kost á sér í viðtal við Fótbolta.net á milli landsleikja íslenska landsliðsins.
Sverrir Ingi var í hjarta varnarinnar í stórsigri gegn Aserbaídsjan í fyrstu umferð í undankeppni HM en það verður meira að gera hjá honum í næsta leik, á útivelli gegn stórveldi Frakklands.
Strákarnir stefna á að berjast við Úkraínu um annað sæti undanriðilsins og gætu góð úrslit í Frakklandi hjálpað þeim möguleika.
„Útileikurinn gegn Frökkum í þessari keppni var alltaf að fara að vera bónusleikur fyrir okkur en við ætlum ekkert að fara og henda inn handklæðinu í byrjun. Við ætlum að mæta þarna með kassann úti og trúa því að við getum mögulega sótt einhverskonar úrslit. Við munum þurfa að verjast vel og vera líka hugrakkir þegar við fáum séns á að halda í boltann og reyna að sækja og reyna að skora á þá," sagði Sverrir ákveðinn.
„Ef við ætlum að fara og gera eitthvað gegn Frökkum þá þarf allt að ganga upp. Það þarf að vera frammistaða og taktíkslega og allt að ganga með okkur. Þetta er spennandi verkefni að fara að takast á við þá, okkur finnst við vera tilbúnir."
Sverrir hefur verið lengi í landsliðinu og er Arnar sjötti landsliðsþjálfarinn sem hann spilar fyrir. Hann er ánægður með áherslubreytingarnar sem fylgja Arnari og telur landsliðið vera á jákvæðri vegferð undir hans stjórn.
Í landsliði Frakka eru nokkrir af bestu fótboltamönnum heims, þar á meðal er Kylian Mbappé.
„Það er ekki oft sem maður fær tækifæri á ferlinum til að spila við þá bestu í heiminum. Við vitum öll hvers megnugur hann er. Ég er ekkert einn að fara að stoppa hann eða neitt þannig, það verður að vera liðsframlag. Það verður virkilega skemmtilegt að takast á við Frakkana, ég hef fengið að spila við þá tvisvar áður og það er virkilega krefjandi verkefni."
Hann viðurkennir að það sé högg að missa Albert Guðmundsson í meiðsli fyrir leikinn gegn Frökkum, en Orri Steinn Óskarsson er einnig á meiðslalistanum ásamt fleirum.
Sverrir leikur með Panathinaikos í gríska boltanum en er ekki með byrjunarliðssæti þar og ræddi stuttlega um framtíðina í lok viðtals.
Athugasemdir