Þýska félagið RB Leipzig seldi nokkra stjörnuleikmenn frá sér í sumar, þar sem Benjamin Sesko fór til Manchester United, Xavi Simons til Tottenham og Loïs Openda til Juventus.
Nokkrir leikmenn voru keyptir inn í staðinn til að fylla í þessi stóru skörð, þar sem Romulo og Johan Bakayoko voru fengnir til félagsins fyrir um 45 milljónir evra samanlagt.
Romulo hefur skorað eitt mark í fyrstu tveimur leikjum Leipzig á nýju tímabili og ákváðu stjórnendur þýska félagsins að kaupa inn nýjan framherja rétt fyrir gluggalok til að veita honum samkeppni. Þetta þurfti félagið að gera eftir að hafa selt André Silva og Yussuf Poulsen frá sér í sumar.
Nýi framherjinn heitir Conrad Harder og er tvítugur Dani. Leipzig borgar um 30 milljónir evra til að kaupa hann úr röðum Sporting CP í Portúgal.
Harder kom við sögu í 47 leikjum með Sporting á síðustu leiktíð og skoraði 11 sinnum. Hann var keyptur til Portúgal í fyrra eftir að hafa gert flotta hluti með Nordsjælland í Danmörku.
Harder spilaði 23 leiki fyrir yngri landslið Danmerkur og fékk að þreyta frumraun sína með A-landsliðinu fyrr á árinu. Hann og Romulo munu berjast um byrjunarliðssæti í fremstu víglínu hjá Leipzig á tímabilinu.
Harder var meðal annars orðaður við Chelsea undir lok sumars en endaði hjá Leipzig.
31.08.2025 11:11
Chelsea í viðræðum um framherja Sporting
Athugasemdir