Alexandra Jóhannsdóttir var á skotskónum með ítalska liðinu Fiorentina er það vann Sampdoria, 3-1, í Seríu A í dag.
Blikakonan var að skora sitt fyrsta mark á tímabilinu með Flórensarliðinu en hún gerði annað mark liðsins í leiknum þegar sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Hún hafði komið inn á sem varamaður á 83. mínútu og skoraði tæpri mínútu síðar er hún fékk boltann í miðjum teignum, færði hann á hægri og skoraði með góðu skoti.
Fiorentina bætti við þriðja markinu í uppbótartíma og var fyrsti sigurinn í rúman mánuð tryggður.
Liðið er í öðru sæti með 26 stig, þremur frá toppliði Juventus eftir tólf umferðir.
Lára Kristín Pedersen var þá í byrjunarliði Club Brugge sem tapaði fyrir Anderlecht í belgíska bikarnum.
Staðan í leiknum var 2-2 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu, en Anderlecht hafði betur í vítakeppni, 3-1.
Bergrós Ásgeirsdóttir var í byrjunarliði Aarau sem tapaði fyrir Servette, 2-1, í svissnesku deildinni. Aarau er í 7. sæti með 14 stig.
Athugasemdir