Bandarísku deildarmeistararnir í Inter Miami hafa sett belgíska landsliðsmanninn Kevin de Bruyne efstan á óskalista félagsins fyrir næsta ár. Mirror greinir frá.
De Bruyne, sem er 33 ára gamall, verður samningslaus eftir þetta tímabil og sagt ólíklegt að hann verði áfram hjá Englandsmeisturum Manchester City.
Hann hefur verið einn af bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar síðasta áratuginn og unnið deildina sex sinnum með félaginu.
Talið er að De Bruyne vilji lengja ferilinn með því að fara í deildir með minni ákefð og meiri hita.
Mirror segir að Inter Miami hafi sett De Bruyne efstan á óskalistann og að David Beckham eigandi félagsins, sé byrjaður að vinna í því að sannfæra miðjumanninn um að koma.
Félög í Sádi-Arabíu hafa einnig verið að horfa til De Bruyne sem hefur áður sagt í viðtali að hann væri opinn fyrir því að fara þangað og erfitt væri að hafna launatékkanum sem er í boði þar, en hann og fjölskylda hans hafa síðustu mánuði átt samræður um framtíðina og kemur þar vel til greina að setjast að í framandi landi.
Athugasemdir