Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 08. júní 2021 21:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnar Þór: Var held ég framherji þegar hann var yngri
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er fyrst og fremst svekkelsi að hafa ekki náð að klára þetta. Þegar við förum að hugsa aðeins dýpra þá erum við rosalega ánægðr með leikinn," sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, í viðtali við RÚV eftir 2-2 jafntefli gegn Póllandi í vináttulandsleik í dag.

„Okkar leikplan virkaði 100 prósent í dag, við skorum tvö mörk og sáum oftar í dag þær sóknarleiðir sem við vorum búnir að tala um og æfa á síðustu tveimur vikum. Varnarleikurinn var hreint út sagt frábær. Það var synd að fá þetta annað mark á okkur í lokin. Þetta var mjög góður leikur af okkar hálfu."

Arnar var sáttur með hugarfar leikmanna eftir leik.

„Ég er ánægður með að sjá leikmennina mína svekkta inn í klefa að hafa tapað þessum leik niður í jafntefli. Það er ekki setið inn í klefa og menn ánægðir að hafa náð frammistöðunni. Það er rosalega mikilvægt, við viljum vinna og ná úrslitum - alveg sama á móti hverjum," sagði Arnar.

Brynjar Ingi Bjarnason, miðvörður KA, hefur verið frábær í þessu verkefni og skoraði hann stórkostlegt mark í dag.

„Brynjar var bara frábær í dag eins og hann er búinn að vera alla ferðina. Hann skorar mark eins og frábær senter, enda var hann held ég framherji þegar hann var yngri. Það sem ég er ánægðastur með er að hann er rólegur og gerir sér fulla grein fyrir því að það eru nokkur skref í viðbót sem hann á eftir að taka. Hann er að verjast mjög vel og er rólegur á boltann þegar við erum í uppspilinu. Hann - eins og allir aðrir ungir leikmenn sem hafa verið með okkur síðustu daga - er bara búinn að vera mjög góður."

Hægt er að horfa á allt viðtalið í heild sinni hérna.
Athugasemdir
banner
banner