banner
   þri 08. september 2020 17:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Noregur: Fyrsti leikur Björns eftir endurkomuna til Lilleström
Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björn Bergmann Sigurðarson var í byrjunarliði Lilleström og spilaði rúman klukkutíma í endurkomusigri gegn Ranheim í norsku 1. deildinni.

Björn gekk nýlega aftur í raðir Lilleström en hann spilaði fyrir félagið frá 2009 til 2012. Hann er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Lilleström og sagði við endurkomuna: „Það skiptir ekki máli hvort það sé úrvalsdeildin eða B-deildin. Lilleström er það sem skiptir máli fyrir mig. Hér vil ég vera."

Björn lék sinn fyrsta leik fyrir Lilleström eftir að hann samdi við félagið á nýjan leik. Ranheim leiddi 1-0 frá 42. mínútu alveg fram á 85. mínútu. Þá jafnaði Lilleström og bætti Íslendingaliðið svo við tveimur mörkum í uppbótartíma. Lokatölur 3-1.

Lilleström er eftir sigurinn í dag með 23 stig í fimmta sæti. Arnór Smárason er einnig á mála hjá félaginu en hann var ekki með í dag.

Adam Örn Arnarson og félagar hans í Tromsö eru á toppi deildarinnar með 32 stig. Adam var ekki með liðinu í 1-1 jafntefli gegn KFUM í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner