fös 08. nóvember 2019 13:57
Magnús Már Einarsson
Guardiola reiður: Við töpum ekki leiknum út af Bravo
Claudio Bravo.
Claudio Bravo.
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola, stjóri Manchester City, brást reiður við þegar hann var spurður út í Claudio Bravo á fréttamannafundi í dag fyrir toppslaginn gegn Liverpool á sunnudag.

Bravo verður í marki Manchester City á sunnudag í fjarveru Ederson sem er meiddur. Ederson meiddist gegn Atalanta í vikunni en Bravo kom inn á og fékk rautt spjald eftir að hafa leyst hann af hólmi. Hægri bakvörðurinn Kyle Walker endaði þann leik í markinu.

Bravo átti erfitt uppdráttar hjá City á sínu fyrsta tímabili 2016/2017 og í kjölfarið ákvað Guardiola að kaupa Ederson. Aðspurður hvort hann geti treyst Bravo fyrst hann vildi nýjan mann í hans stað, sagði Guardiola: „Af hverju ætti ég ekki að hafa trú á mínum leikmanni?"

„Ég sé hann alla daga á æfingum. Við erum ekki að fara að tapa út af Claudio. Rauða spjaldið í fyrradag kom af því að við misstum boltann."

„Sýnið náunganum virðingu. Hann hefur unnið titla og Copa america. Á fyrsta tímabili hér var hann ekki upp á sitt besta en hann er topp markvörður."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner