Arsenal orðað við fjóra sóknarmenn - Real Madrid að sækja bróður Mbappe líka - Zidane efstur á lista Ratcliffe - Barcelona á eftir De Gea
banner
   fös 08. desember 2023 12:15
Elvar Geir Magnússon
KSÍ rekið með verulegu tapi á þessu ári
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri.
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Höfuðstöðvar KSÍ á Laugardalsvelli.
Höfuðstöðvar KSÍ á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gert er ráð fyrir að Knattspyrnusamband Íslands verði rekið með verulegu tapi á þessu ári. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar sambandsins.

Sagt er að ástæðurnar séu meðal annars árangurstengd verkefni sem voru ekki í fjárhagsáætlun, þjálfaraskipti karlalandsliðsins og aukinn kostnaður við flug og uppihald landsliða.

Stjórnin ræddi ítarlega hvort hægt sé að draga úr rekstrartapinu með mótvægisaðgerðum á lokametrum ársins.

„Óvissa er um þann kostnað sem fellur á KSÍ til þess að halda Laugardalsvelli leikhæfum til loka nóvember, en lagt hefur verið hart að stjórnvöldum að taka á sig þennan kostnað enda er bágborin vallaraðstaða ekki á ábyrgð KSÍ," segir í fundargerðinni.

Mikill kostnaður við að reyna að halda Laugardalsvelli leikhæfum
Á fundinum var rætt um kostnað við Evrópuleiki Breiðabliks og lögð var fram frumáætlun um endurbætur á Laugardalsvelli sem Þorbergur Karlsson úr mannvirkjanefnd KSÍ vann.

Í skýrslunni er m.a. farið yfir kröfur UEFA og FIFA, greind eru möguleg vallaryfirborð (gras, hybrid gras og gervigras), farið yfir nauðsynlegar og löngu tímabærar endurbætur innanhúss, kostnaður er greindur og tímaáætlun lögð fram.

Samkvæmt skýrslunni er lítill munur á stofnkostnaði annars vegar við undirhita og gervigrasi og hins vegar við undirhita og hybrid gras, eða rúmlega 400 mkr. Mat á árlegum rekstrarkostnaði bendir þó til þess að kostnaður sé hærri við rekstur á hybrid grasi.

Þá er einnig í skýrslunni kostnaðargreining á nýjum flóðljósum en samkvæmt úttekt UEFA duga núverandi flóðljós eingöngu í eitt til tvö ár til viðbótar.

„Stjórn KSÍ ítrekar fyrri áskorun til stjórnvalda að tafarlaust verði gengið til viðræðna um löngu tímabærar framkvæmdir um þjóðarleikvang í knattspyrnu. Stjórn KSÍ þakkar Þorbergi Karlssyni kærlega fyrir hans miklu og góðu vinnu," segir í fundargerðinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner