Enski sparkspekingurinn Jamie Carragher telur ólíklegt að Arsenal verði Englandsmeistari þegar talið verður upp úr pokanum í vor, en hann nefnir eina ástæðu sem gæti komið í veg fyrir það.
Arsenal er þessa stundina í toppsæti deildarinnar og hefur verið að spila gríðarlega vel að undanförnu.
Það sem hefur verið helst til umræðu varðandi Arsenal á þessu tímabili er markvarðarmálin.
Aaron Ramsdale var frábær í marki liðsins á síðustu leiktíð en ákveðið var að fá David Raya á láni frá Brentford í sumar og hefur hann náð að festa byrjunarliðssæti í liðinu.
Þetta umræðuefni kemur reglulega upp á blaðamannafundum og gæti haft neikvæð áhrif á móralinn í hópnum, en Carragher telur að þetta gæti vel haft áhrif á möguleika Arsenal að landa titlinum.
„Það eru tveir hlutir sem fær mig til að hugsa að Arsenal muni ekki vinna deildina. Ég veit ekki um mörg lið ef þá eitthvað sem hefur unnið deildina án þess að markvörðurinn sé stór hluti af því. Ég horfi á markvarðarmálin og það er einhver ónota tilfinning við þá stöðu. Ég horfi líka á þessi flautumörk sem liðið hefur verið að skora og það gæti vissulega verið jákvætt, en það gæti líka verið neikvætt,“ sagði Carragher í hlaðvarpsþættinum Stick to Football.
Athugasemdir