Spænska félagið Real Madrid ætlar formlega að skrá sig í baráttuna um miðvörðinn unga og efnilega Dean Huijsen sem er á mála hjá Bournemouth á Englandi. Þetta segir MARCA.
Huijsen er tvítugur og átt stórkostlegt tímabil með Bournemouth sem hefur komið honum í umræðuna sem einn af bestu varnarmönnum tímabilsins.
Real Madrid er eitt af þeim félögum sem hafa fylgst með Huijsen, en hingað til hafa hins vegar enskir fjölmiðlar sagt að ensku úrvalsdeildarfélögin leiði baráttuna.
MARCA segir að nú sé það Real Madrid sem sé í bílstjórasætinu þar sem félagið þurfi miðvörð og það sem allra fyrst, en það telur William Saliba, varnarmann Arsenal, of dýran og ekkert víst að það geti sannfært Arsenal um að selja hann í sumar.
Huijsen er með 50 milljóna punda klásúlu í sumar og er talið öruggt að hann skipti um félag.
Chelsea og Liverpool hafa mikinn áhuga á að festa kaup á honum í sumar, en það verður hægara sagt en gert að vinna kapphlaup við Madrídinga.
EInnig spilar það stóra rullu að Huijsen er uppalinn á Spáni og lék meðal annars fyrsta landsleik sinn fyrir spænska landsliðið fyrr á þessu ári.
Athugasemdir