Spænski stjórinn Mikel Arteta segir að Arsenal hafi verið besta lið tímabilsins í Meistaradeildinni en að nú sé það dottið út og það sem skilur að er frammistaða ítalska markvarðarins Gianluigi Donnarumma.
Arsenal tapaði báðum undanúrslitaleikjum sínum gegn Paris Saint-Germain.
Ousmane Dembele var hetjan á Emirates í 1-0 sigri og þá skoruðu þeir Achraf Hakimi og Fabian Ruiz mörkin í kvöld gegn einu marki frá Bukayo Saka.
Arteta segir að fótboltinn getur stundum verið ósanngjarn.
„Ég vil byrja á því að óska PSG til hamingju með að vera komið í úrslitaleikinn. Ég mun síðan fara betur yfir málin þegar ég er búinn að ná ró,“ sagði Arteta.
„Ef þú horfir á þessa tvo leiki þá sérðu að besti leikmaður þeirra á vellinum var markvörðurinn. Hann gerði gæfumuninn í þessu einvígi. Við vorum nálægt þessu og mun nær heldur en úrslitin segja til um, en því miður erum við úr leik. Ég er ótrúlega stoltur af leikmönnunum.“
„Við áttum að vera 3-0 yfir eftir 20 mínútur. Þú þarft samt eitthvað auka sem þarf að fara þér í hag i þessari keppni og það gerði það ekki hjá okkur. Við vorum samt mjög nálægt þessu og á löngum köflum í leiknum vorum við mun betri en þeir en við fórum ekki áfram og það er sársaukafullt.“
„Ef við viljum vinna þessa keppni þá þurfum við virkilega að átta okkur á því. Það eru sumir hlutir við berum ábyrgð á og þú átt ekki bara að skilja það að við séum úr leik. Þú átt ekki að líta þannig á hlutina,“ sagði Arteta.
Hann er á því að Arsenal hafi verið besta lið keppninnar.
„Það er 100%. Ég held að ekkert annað lið hafi verið betra en Arsenal í þessari keppni eða svona miðað við það sem ég hef séð, en við erum úr leik. Þessi keppni snýst um teiga og í báðum teigum eru framherjar og markverðir og í þessum leikjum höfðu þeir vinninginn.“
„Ég er svo ótrúlega stoltur af leikmönnunum. Þeir eiga mikið hrós skilið fyrir það sem þeir eru að gera ef allt er tekið með í samhengið eins og meiðsli og annað. Þetta er sennilega versta ásigkomulagið í þessari stöðu og að koma hingað með öðruvísi samhengi og samt náð að gera þetta gerir mig bjartsýnan fyrir framtíðina, en í kvöld er ég leiður,“ sagði Arteta í lokin.
Athugasemdir