
Á laugardaginn verður fyrsti íþróttakappleikurinn í Grindavík í átján mánuði þegar karlalið Grindavíkur mætir Fjölni í Lengjudeildinni.
Jarðhræringar og eldgosahrina hafa staðið yfir á Reykjanesskaganum en fótboltalið Grindavíkur ætlar að spila heimaleiki sína í Lengjudeild karla í bænum. Núna hefur það verið tilkynnt að Stakkavíkurvöllur í Grindavík sé metinn öruggur til keppni og æfinga.
Jarðhræringar og eldgosahrina hafa staðið yfir á Reykjanesskaganum en fótboltalið Grindavíkur ætlar að spila heimaleiki sína í Lengjudeild karla í bænum. Núna hefur það verið tilkynnt að Stakkavíkurvöllur í Grindavík sé metinn öruggur til keppni og æfinga.
„Mánudaginn 5. maí síðastliðinn fór fram samráðs- og upplýsingafundur í Grindavík þar sem rætt var um öryggi Grindavíkurvallar og hvernig tryggja megi öryggi gesta, starfsfólks og keppenda á svæðinu. Fundinn sátu m.a. fulltrúar Grindavíkurbæjar, UMFG, KSÍ, Íslensks toppfótbolta, slökkviliði, lögreglu, öryggisstjóri vettvangsstjórnar í Grindavík og jarðfræðingar frá Eflu og ÍSOR," segir í tilkynningu frá Grindavíkurbæ.
„Við stöðuskoðun á mannvirkjum Grindavíkurvallar þann 30. apríl voru engar skemmdir sjáanlegar og ekki voru merki um hreyfingar. Öll mannvirki eru talin örugg til notkunar. Þetta á við um búningsklefa, áhorfendastúku og knattspyrnuvöllinn sjálfan."
Í tilkynningunni er sagt að rýmingaráætlun sé til staðar ef þarf og eru gestir boðnir velkomnir.
„Grindavíkurbær og UMFG leggja áherslu á að íþróttastarfsemi eigi sér stað við bestu mögulegu öryggisskilyrði og að gestir geti mætt á Grindavíkurvöll með traust og öryggistilfinningu. Minnt er á að Grindavík hefur verið opinn almenningi síðan 21. október 2024," segir í tilkynningunni.
Athugasemdir