Arne Slot þjálfari Liverpool staðfesti á fréttamannafundi í dag að brasilíski markvörðurinn Alisson Becker er klár í slaginn eftir meiðsli aftan í læri.
Alisson er 32 ára gamall og er af mörgum talinn vera einn af allra bestu markvörðum heims.
Írski landsliðsmarkvörðurinn Caoimhin Kelleher stóð sig frábærlega í fjarveru Alisson en gerðist sekur um slæm mistök í síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar, í 3-3 jafntefli gegn Newcastle.
Kelleher átti að spila leikinn gegn Everton í gær, en honum þurfti að fresta vegna veðurs. Kelleher er búinn að spila 10 af síðustu 11 leikjum Liverpool sem aðalmarkvörður en nú er komið aftur að Alisson.
Liverpool heimsækir Girona til Spánar í Meistaradeild Evrópu á morgun og má búast við að Alisson verði í byrjunarliðinu.
„Alisson er kominn aftur og hann er klár í slaginn. Hann getur spilað gegn Girona á morgun," sagði Slot meðal annars á fréttamannafundinum.
Athugasemdir