Johan Djourou, fyrrum miðvörður Arsenal, ætlar að draga svissneska félagið Sion fyrir dómstóla eftir að hann og átta liðsfélagar hans voru reknir frá félaginu fyrir að taka ekki á sig launalækkun.
Djourou og átta aðrir leikmenn, þar á meðal miðjumaðurinn Alex Song, voru reknir frá félaginu eftir að þeir neituðu að taka launalækkun í kjölfar kórónuveirufaraldursins.
Í viðtali við Le Nouvelliste í Sviss segir Djourou: „Ég hef ekki lagt fram ákæru til þess að fá pening eða snúa aftur í liðið. Ég og liðsfélagar mínir erum ekki málaliðar sem hugsa bara um aurinn, eins og sumir hafa haldið fram."
„Ef rétturinn dæmir mér í dag þá mun ég gefa peninginn til góðgerðarmála."
Djourou segist vera að leita réttar síns til að bæta fyrir þá andlegu vanlíðan og eyðileggingu á orðspori sem hann hefur orðið fyrir. Hann segir það ósanngjarnt að félagið hafi bara gefið leikmönnum 24 klukkustunda umhugsunarfrest.
Athugasemdir