banner
   mán 10. ágúst 2020 18:10
Brynjar Ingi Erluson
Kostas Tsimikas til Liverpool (Staðfest)
Kostas Tsimikas er genginn til liðs við Liverpool
Kostas Tsimikas er genginn til liðs við Liverpool
Mynd: Getty Images
Englandsmeistarar Liverpool hafa gengið frá kaupum á gríska vinstri bakverðinum Kostas Tsimikas en hann kemur frá Olympiakos. Þetta kemur fram í tilkynningu frá enska félaginu í kvöld.

Tsimikas er 24 ára gamall og uppalinn hjá Olympiakos en Liverpool hefur fylgst með leikmanninum í þrjú ár.

Hann hefur spilað feykivel með liðinu en hann kemur til með að berjast við Andy Robertson um bakvarðarstöðuna.

Liverpool og Olympiakos náðu samkomulagi um Tsimikas á dögunum en Liverpool greiðir 11,75 milljón punda fyrir hann en það gæti þó hækkað ef ákveðnum skilyrðum er mætt.

Hann gerir langtímasamning við Liverpool og er hann í skýjunum með að hafa skrifað undir hjá félaginu.

„Ég er mjög ánægður og stoltur að vera kominn hingað. Þetta er stærsta félag heims í mínum augum og það er heiður að vera hér og mun ég gera mitt besta fyrir félagið," sagði Tsimikas við undirskrift.

Þetta eru fyrstu kaup Liverpool í sumar en Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, gæti styrkt varnarlínuna enn frekar í sumar. Dejan Lovren yfirgaf félagið á dögunum og gæti því verið þörf á miðverði.


Athugasemdir
banner
banner