þri 10. september 2019 15:57
Elvar Geir Magnússon
Félag Arnars Grétarssonar gjaldþrota
Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson.
Mynd: Roeselare
Í dag var tilkynnt um gjaldþrot belgíska félagsins Roeselare en Arnar Grétarsson var ráðinn þjálfari liðsins í byrjun ágústmánaðar.

„Þetta er félag sem hefur flakkað á milli deilda. Það hefur átt í fjárhagserfiðleikum og skilað tapi," sagði Arnar við Vísi þegar hann tók við starfinu.

Belgískir fjölmiðlar segja að forráðamenn Roeselare hafi ekkert viljað tjá sig um gjaldþrotið og framtíð félagsins. Sagt er að fundarhöld verði í kvöld.

Roeselare er með tvö stig eftir fimm umferðir í belgísku B-deildinni.

Kínverska viðskiptakonan Xiu Li Dai keypti félagið 2016 en hætti að setja peninga í það í fyrra. Í sumar voru sögusagnir um að brasilískir fjárfestar vildu kaupa félagið en ekkert varð af þeim viðskiptum.

Skulda háan reikning á veitingastað
Fram kemur í nieuwsblad.be að aðdragandi gjaldþrotsins hafi verið sá að eigandi veitingastaðs í bænum hafi farið í málaferli við félagið þar sem það skuldar honum um 3,5 milljónir íslenskra króna.

Leikmenn hafi borðað og drukkið á staðnum á síðasta tímabili en félagið hafi svo ekki borgað reikninginn. Málið fór í dómssal en þar var enginn fulltrúi frá félaginu mættur.

Í kjölfarið var lýst yfir gjaldþroti Roeselare.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner