Grealish samþykkir að fara til Everton - Guehi er til sölu fyrir rétt verð - Milan í viðræðum um Höjlund
   mán 11. ágúst 2025 10:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sonur Dagnýjar fékk treyju Hákons
Brynjar og Hákon.
Brynjar og Hákon.
Mynd: Skjáskot - Instagram
Landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson var í byrjunarliði Lille þegar liðið gerði jafntefli gegn enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham í æfingaleik um síðastliðna helgi.

Leikurinn fór fram á Ólympíuleikvanginum í London en bæði þessi lið eru á fullu að undirbúa sig fyrir komandi tímabil.

Olivier Giroud, sem gekk í raðir Lille í sumar, kom franska félaginu yfir en Hákon lagði upp mark fyrir hann í æfingaleik á dögunum. Það verður gaman að fylgjast með samvinnu þeirra í vetur.

West Ham jafnaði í seinni hálfleik og tóku liðin vítaspyrnukeppni eftir leik. Þar skoraði Hákon úr sinni vítaspyrnu en Lille tapaði samt sem áður í þeirri keppni.

Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir var á meðal áhorfenda á leiknum en þar var hún með eldri syni sínum, Brynjari Atla.

Hákon hitti þau eftir leik en hann gaf Brynjari treyjuna sem hann spilaði leikinn í. Á Instagram mátti sjá að Dagný var virkilega ánægð með það.

„MVP Hákon Haraldsson. Takk svo mikið," skrifaði Dagný við mynd af þeim félögum.

Dagný hefur leikið með West Ham síðastliðin ár en það var tilkynnt í síðustu viku að hún verði ekki áfram þar.

Hákon, sem er 22 ára, er á leið inn í sitt þriðja tímabil með Lille.
Athugasemdir
banner