
Fjölnir féll úr Lengjudeildinni um síðustu helgi. Gunnar Már Guðmundsson, þjálfari liðsins, segir liðið hafa vitað að erfitt verkefni væri framundan en niðurstaðan væri engu að síður mjög súr. Fótbolti.net ræddi við Gunnar um niðurstöðu helgarinnar.
„Við horfðum í það eiga úrslitaleik um næstu helgi. Það leit út fyrir að það myndi takast en það féll einhvern veginn allt gegn okkur í þessari umferð. Þetta var súr endir á þessum degi. Það var stemning í liðinu og við veittum Þórs-liðinu mjög góðan leik. Það var ekkert sem benti til að þeir væru í efsta sæti og við neðstir,“ segir Gunnar í samtali við Fótbolti.net í gærdag.
„Við förum inn í tímabilið vitandi að þetta yrði erfitt. Okkur fannst við finna blönduna á liðinu um mitt mót, en einhvern veginn fellur ósköp lítið með okkur. Við náum ekki að bregðast við, ekki á markaðnum og náum ekki að snúa jöfnum leikjum okkur í vil.“
Með forystu í 12 leikjum en vinna eingungis þrjá
„Það var ákveðið rótleysi á okkur í byrjun móts. Ef við höfðum byrjað mótið betur og náð inn stigum í upphafi. Þá held ég að það hefði haft áhrif á andlega hlutann og við náð að sigla inn einhverjum leikum. Við erum með forystu í tólf leikjum í sumar en vinnum eingungis þrjá.“
Gunnar tekur við liðinu um miðjan febrúar
„Til að byrja með höfðum við ekki mannskap til að spila þann fótbolta sem ég vildi spila, við þurftum aðeins að hliðra til. Svo þurfti að aðlaga æfingarnar að því standi sem hópurinn var í. Það voru búnar að vera miklar breytingar á hópnum á milli ára, hópurinn var niðurbrotinn það var áþreifanlegt. Reyndari menn höfðu ekki trú á verkefninu og svo framvegis.“
Fjárhagsstaða félagsins erfið
„Það er okkar að leiðrétta þetta strax. Við vorum með markmið til ákveðinna ára og við ætlum ekki að víkja frá því. Við tökum undirbúning í annari deild til að reyna fara beint upp úr Lengjudeildinni eftir tvö ár. Það hefur ekkert verið neitt leyndarmál að fjárhagsstaða félagsins hefur verið erfið. Markmiðið var að fara í gegnum þetta tímabil á heimamönnum í staðinn fyrir að vera sækja dýrari leikmenn og gefa þeim reynslu til að leiða liðið í framtíðinni. Þetta er dýrmæt reynsla þó að hún sé súr.
Frá ágætisliði í sigurvegara
„Fljótt talið er þetta tíunda skiptið sem ég fer upp eða niður um deild með félaginu. Hvert og eitt skipti er ólíkt og mikil reynsla. Menn þurfa að snúa því við að vera ágætis lið með ágætis frammistöður í það að vera sigurvegarar og vinna leiki. Hvort sem að það verður í 2. deildinni eða annars staðar verður það allaveganna að gerast. Við viljum halda stærstum hluta hópsins og byggja ofan á það og sækja menn sem styðja við okkar leikmenn. Ég geri ráð fyrir að það verða litlar sem engar breytingar á þjálfarateyminu við verðum áfram þarna og ætlum að byggja ofan á það sem við ætlum að gera. Þetta er ferli en helvíti döpur niðurstaða,“ segir Gunnar að lokum.
Lengjudeild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Þór | 21 | 13 | 3 | 5 | 49 - 30 | +19 | 42 |
2. Þróttur R. | 21 | 12 | 5 | 4 | 42 - 35 | +7 | 41 |
3. Njarðvík | 21 | 11 | 7 | 3 | 47 - 25 | +22 | 40 |
4. HK | 21 | 11 | 4 | 6 | 42 - 29 | +13 | 37 |
5. ÍR | 21 | 10 | 7 | 4 | 37 - 25 | +12 | 37 |
6. Keflavík | 21 | 10 | 4 | 7 | 49 - 38 | +11 | 34 |
7. Völsungur | 21 | 7 | 4 | 10 | 36 - 48 | -12 | 25 |
8. Grindavík | 21 | 6 | 3 | 12 | 38 - 58 | -20 | 21 |
9. Fylkir | 21 | 5 | 5 | 11 | 32 - 31 | +1 | 20 |
10. Leiknir R. | 21 | 5 | 5 | 11 | 22 - 39 | -17 | 20 |
11. Selfoss | 21 | 6 | 1 | 14 | 24 - 40 | -16 | 19 |
12. Fjölnir | 21 | 3 | 6 | 12 | 31 - 51 | -20 | 15 |
Athugasemdir