Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 11. nóvember 2019 17:26
Elvar Geir Magnússon
Tyrklandi
„Þetta truflaði engan" - Sérstaklega strangt eftirlit fyrir Íslendinga?
Icelandair
Víðir Reynisson, öryggisstjóri KSÍ á æfingu íslenska liðsins í Belek rétt fyrir utan Antalya í Tyrklandi í dag.
Víðir Reynisson, öryggisstjóri KSÍ á æfingu íslenska liðsins í Belek rétt fyrir utan Antalya í Tyrklandi í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölmiðlamenn Sýnar og tveir íslenskir landsliðsmenn voru saman í flugi til Tyrklands í gærkvöldi. Óskar Ófeigur Jónsson fréttamaður segir frá því í frétt á Vísi að Íslendingarnir fjórir hafi þurft að fara í gegnum sérstaka skoðun á meðan aðrir hafi labbað beint í gegn á flugvellinum í Antalya.

Heyrst hefur að fleiri úr íslenska hópnum, bæði leikmenn og starfslið, hafi lent í svipuðu við komuna til Tyrklands. Óskar Ófeigur segir að landamæravörður hafi skoðað lista sem talið er að hafi innihaldið nöfn íslenska hópsins.

Tyrkneska landsliðið kvartaði mikið undan því fyrr á árinu að hafa verið lengi að komast í gegn á flugvellinum í Keflavík og þjálfari Tyrkja hellti úr skálum reiði sinnar á fréttamannafundi.

Tyrkir eru gestrisnir
Fótbolti.net spjallaði við Víði Reynisson, öryggisstjóra íslenska landsliðsins, sem sagði að skoðunin á flugvellinum væri ekki stórmál.

„Þeir segja að þetta hafi verið venjubundið eftirlit. Þetta var ekkert vesen. Menn bara biðu á meðan verið var að skoða vegabréfin. Það gekk vel að fara í gegn og ekkert stórvægilegt vesen hjá neinum," segir Víðir.

En er það ekki furðuleg tilviljun að bara íslensk vegabréf hafi verið stöðvuð í sérstaka skoðun?

„Kannski er vera okkar að vekja einhverja athygli. Þetta truflaði allavega engan og menn bara brostu út í annað." segir Víðir.

„Móttökurnar eru frábærar. Tyrkirnir eru gestrisnir og það er dekrað við okkur á hótelinu og í kringum okkur. Við höfum verið í miklu sambandi við tyrkneska knattspyrnusambandið til að fara yfir öll mál varðandi leikinn. Það er langt síðan þeir hafa spilað svona mikilvægan leik í Istanbúl og þeim er mjög annt um að allt sé í toppstandi."

Víðir segir að engin ástæða sé til þess að ætla að frekari vandamál komi upp.

„Það hafa verið góð samskipti. Við ætlum bara að fara til Istanbúl og vinna leikinn, það skiptir öllu máli," segir Víðir.
Athugasemdir
banner
banner
banner