Draumur Bolvíkingsins Andra Rúnars Bjarnasonar rættist í sumar þegar hann lék með Vestra, uppeldisfélagi sínu, í efstu deild. Andri, sem gekk nýlega í raðir Stjörnunnar, ræddi um sumarið fyrir vestan í útvarpsþættinum Fótbolti.net.
Vestri náði því markmiði sínu að halda sér í deildinni en á endanum hélst liðið uppi á betri markatölu en HK.
Vestri náði því markmiði sínu að halda sér í deildinni en á endanum hélst liðið uppi á betri markatölu en HK.
Fyrst og fremst ógeðslega gaman
„Þetta var fyrst og fremst ógeðslega gaman en auðvitað smá stressandi, sérstaklega undir lokin. Rétt fyrir úrslitakeppnina var ég meiddur á öxlinni og hélt að tímabilið væri búið hjá mér, við vorum ekki í frábærri stöðu þá var maður pínu stressaður. Það gerir það þá bara sætara að þetta tókst í lokin," segir Andri.
Andri var meiddur hluta af tímabilinu en mörkin hans reyndust heldur betur drjúg. Hann skoraði mikilvæg mörk á mikilvægum tímapunkti sem tryggðu hans liði mörg stig. Hann segir að þjálfari Vestra, Davíð Smári Lamude, passi vel upp á að menn séu í hlutverki þó menn séu á meiðslalistanum.
„Þó ég hafi verið meiddur og gat ekki spilað var ég með á æfingum og var áfram hluti af liðinu. Davíð er rosalega góður í þessu, þó þú sért meiddur ertu með hlutverk. Auðvitað var þetta pirrandi fyrir mig persónulega því ég vildi gera miklu meira, Ég hefði verið sáttur með 8 mörk í 18 leikjum fyrirfram, og við náðum að halda okkur uppi. Ég hefði tekið því."
Sá spennufallið í klefanum
Vestri tapaði 1-3 fyrir föllnum Fylkismönnum í lokaumferðinni. Ekki falleg úrslit en Vestri var yfir í hálfleik. Þá bárust fréttir af því að KR væri að rúlla yfir tíu leikmenn HK á sama tíma svo áframhaldandi vera Vestra í deildinni var tryggð. Andri segir að hugarfarið hafi breyst við þessi tíðindi.
„Það var sagt í klefanum í hálfleik hvernig staðan væri í hinum leiknum og maður sá bara spennufallið. Það var búið að vera svo mikið stress eftir KA leikinn og við vorum að vinna með einu marki í hálfleik. Eftir hálfleikinn þá sá maður að menn hafi ekki verið að hugsa hvað var að gerast og svo var líka mikil snjókoma. Fylkismenn voru að fara að keyra heim í skítaveðri, þeir sáust allir í ríkinu fyrir leik og voru ekki að fara að vera edrú í þessari rútu. Þá voru þeir ekki að fara að láta pakka sér saman í síðasta leiknum. Það var skrítið að tapa leiknum svona en menn voru fegnir," segir Andri.
Brennd frá Eyjum
Hann segir að það hafi verið ákveðið þegar hann kom heim að hann yrði bara eitt tímabil, þó samningurinn hafi verið settur upp sem tveggja ára samningur af Samúel Samúelssyni, formanni meistaraflokksráðs Vestra.
„Ég var búinn að gefa Samma loforð um að koma og spila fyrir Vestra en ég var líka búinn að gefa konunni loforð um að hún þyrfti ekki að elta mig út á land. Hún er líka kannski brennd frá Eyjum þar sem var eitt versta siglingaár Herjólfs sem vitað er um. Ef hún fer lengra en Norðlingaholt núna líður henni illa," segir Andri á léttu nótunum.
„Það var alltaf hugmyndin að vera eitt ár, þeir reyndu að halda mér áfram en ég var búinn að lofa konunni og fjölskyldunni þessu."
Hefur ekki áhyggjur af Vestra
Andri er alls ekki eini leikmaðurinn sem hefur yfirgefið Vestra og ljóst að Davíð þarf að setja saman að mörgu leyti nýtt lið og fá inn marga leikmenn. Þrátt fyrir það stóra verkefni sem er framundan segist Andri ekki hafa áhyggjur af sínu félagi. Hann reiknar með öflugu Vestraliði á næsta ári.
„Hann er svo góður í að búa til nýtt lið að ég persónulega hef ekki áhyggjur af þeim. Þeir halda allri varnarlínunni, það þarf bara að byggja aðeins upp sóknarlega," segir Andri sem fer fögrum orðum um Davíð sem þjálfara.
„Ég er ekki viss um að það hefðu margir haldið Vestra uppi miðað við allt sem gekk upp. Það var gríðarlegur mótvindur í sumar en hann missti aldrei trúna. Hann er ógeðslega góður í því að fá leikmenn til að sjá hvernig hann sér leikinn og það er mjög góður kostur. Sama hvernig þú vilt setja upp leikinn þá verður þú að fá leikmenn til að trúa á það til að það heppnist."
Athugasemdir