þri 12. janúar 2021 23:02
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Solskjær: Fær þig til að brosa
Ole Gunnar Solskjær, stjóri United.
Ole Gunnar Solskjær, stjóri United.
Mynd: Getty Images
Lærisveinar Ole Gunnar Solskjær í Manchester United eru á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa spilað 17 leiki. United er með 36 stig á toppnum.

United hafði betur gegn Burnley á útivelli í kvöld þar sem Paul Pogba skoraði eina mark leiksins.

„Það fær þig til að brosa þegar þú færð þrjú stig í ensku úrvalsdeildinni. Við unnum fyrir þessum þremur stigum," sagði Solskjær eftir sigurinn.

Solskjær var óánægður með markið sem var dæmt af Man Utd, mark sem Harry Maguire skoraði. Hann var ánægður með það hvernig liðið svaraði eftir það.

„Við vorum ekki frábærir fyrsta hálftímann en við rönkuðum við okkur eftir VAR ákvarðanirnar. Strákarnir voru aðeins of skapheitir. Ég skil þá að vera reiðir út af markinu sem Harry Maguire skoraði en ég varð að róa þá í hálfleik."

„Burnley er mjög vel skipulagt lið og það er ekki mikið pláss en okkur tókst að finna pláss. Markið kom eftir frábæra fyrirgjöf og það var mjög vel klárað. Við hefðum getað skorað fleiri til að róa taugarnar en við fórum erfiðu leiðina."

Solskjær hrósaði Pogba mjög en næsti leikur liðsins er við Liverpool um helgina. Það verður toppslagur af bestu gerð.

„Þeir eru meistararnir og hafa átt þrjú ótrúleg tímabil. Við erum tilbúnir, við erum spenntir og við erum hungraðir," sagði Solskjær.
Athugasemdir
banner
banner
banner