Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 12. febrúar 2020 14:00
Miðjan
Missti ungan leikmann - „Langerfiðasta augnablik mitt"
Jón Páll Pálmason.
Jón Páll Pálmason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri Ómarsson.
Orri Ómarsson.
Mynd: Aðsend
Jón Páll Pálmason, þjálfari Víkings Ó, er gestur vikunnar hjá Hafliða Breiðfjörð í hlaðvarpsþættinum Miðjunni. Jón Páll rifjar þar upp erfiða lífsreynslu frá því árið 2010 þegar Orri Ómarsson lést en Jón Páll hafði þjálfað hann lengi í yngri flokkum FH.

„Það er án nokkurs vafa langerfiðasta augnablik mitt sem fótboltaþjálfari. Ég var búinn að þjálfa Orra í 5-3. flokki og fara með honum tvisvar til Svíþjóðar og út um allt land. Ég hafði þjálfað litla bróðir hans og mamma hans og pabbi voru mikið í kringum okkur. Síðan var hann allt í einu dáinn. Hann féll fyrir eigin hendi," sagði Jón Páll.

„Það var mjög erfitt í langan tíma. Það er ennþá erfitt. Maður er alltaf að reyna að komast inn í hausinn á þeim sem maður þjálfar og skilja það. Þegar ég hef horft á unga stráka sem ég þjálfa og stelpur, þá hugsa ég mikið til hans. Ég sá ekki neitt. Ég sá aldrei að honum leið illa. Hann var mjög góður í fótbolta og handbolta, fluggáfaður og fjallmyndarlegur. Fjölskyldan hans er og var fullkomin fjölskylda. Maður skildi þetta ekki."

„Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór í þjálfun upprunalega var að hjálpa strákum og stelpum að halda áfram að spila fótbolta á þessum unglingsárum. Það breytist svo mikið á unglingsárunum. Þú ert kannski með mjög efnilega íþróttamenn sem þroskast kannski seint og gleymast. Síðan ertu líka með þessi hæfileikabúnt sem verða kannski meðaljón. Heilinn er svo ungur að það er erfitt að finna sig."

„Ég vildi kenna þeim að þó að þú sért ekki bestur þegar þú ert 15 ára þá getur þú verið góður leikmaður 18 ára. Það sveið mjög þegar einn af mínum mönnum dó. Mér fannst eins og ég hefði brugðist honum og sjálfum mér og strákunum. Þú hugsar alltaf hvort þú hefðir ekki átt að sjá þetta. Ég var með hann fimm sinnum í viku."


„Ég sakna Orra og ég hefði viljað vera með Orra í Ólafsvík. Hann kenndi mér mikið og vonandi fleirum," sagði Jón Páll meðal annars. „Ég er ekki búinn að sætta mig við þetta en ég lifi með þessu. Ég verð ekki reiður lengur þegar ég hugsa um þessi mál."

Upplifði sjálfur vanlíðan á unglingsárum
Jón Páll segist sjálfur hafa upplifað það að líða illa andlega á unlingsárunum.

„Þegar ég var yngri var ég sjálfur í svipuðum vandræðum. Ég fór ekki jafn djúpt og Orri en ég átti erfitt uppdráttar. Fólk segir oft að bestu árin séu framghaldskólaárin en ég hataði þau. Ég var óöruggur, með lífið sjálfstraust og vissi ekki hvað ég ætti að gera."

„Það komu dagar þar sem ég átti erfitt með að fara á fætur. Stundum slokknaði á mér. Það voru skapbrestir og ég var pirraður þegar gekk illa. Ég fékk aðstoð við því. Ég vildi ekki fá aðstoð þá og það komu alls konar hugsanir á þessum tímum,"
sagði Jón Páll en hann segir líðan sína betri í dag.

„Ég er í ofboðslega góðu jafnvægi núna dags daglega. Ég er heppinn. Ég á ótrúlega góða fjölskyldu. Mamma og pabbi eru frábært fólk. Ég á eina systir, hún er mjög skemmtileg og á fullt af börnum. Ég á frábæra konu. Ég á ekki marga góða vini en þeir eru ansi góðir vinir mínir sem eru vinir mínir. Ég er í mjög góðum stað í lífinu að mínu mati," sagði Jón Páll.

Jón Páll tjáir sig nánar um andlát Orra í Miðjunni. Hér að neðan má hlusta á viðtalið.
Miðjan - Jón Páll frá Pacman Pizza til Ólafsvíkur
Athugasemdir
banner
banner
banner