Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 13. janúar 2022 09:34
Elvar Geir Magnússon
Digne til Villa (Staðfest) - Sár yfir framkomu Benítez
Mynd: Aston Villa
Aston Villa hefur tilkynnt um kaup á franska bakverðinum Lucas Digne frá Everton. Digne hefur unnið deildartitla með Paris Saint-Germain í Frakklandi og Barcelona á Spáni.

Þá hefur hann leikið fyrir Frakklandi á HM og EM.

„Þegar Lucas varð fáanlegur þá stukkum við á það tækifæri að fá hann til félagsins. Það er spennandi að fá svona gæðamikinn og öflugan leikmann í janúarglugganum," segir Steven Gerrard, stjóri Aston Villa.

Í gærkvöldi birti Digne færslu á Instagram þar sem hann sagðist vera mjög sár yfir þeirri framkomu sem hann hefði fengið hjá Everton. Það kastaðist í kekki milli hans og stjórans Rafa Benítez.

„Fyrir aðeins einu ári síðan skrifaði ég undir nýjan samning við Everton enda með metnað fyrir því að vera lengi hjá félaginu. Minn draumur var að hjálpa félaginu að komast á þann stað þar sem það á heima. Allt tekur enda að lokum en ég bjóst ekki við því að endirinn yrði svona," skrifaði Digne meðal annars.

„Það sem átti sér stað og sumt af því sem var sagt um mig gerði mig mjög sáran. En ég ætla ekki í orðastríð við nokkurn mann. Félagið, stuðningsmennirnir og ég eigum það ekki skilið. Stundum þarf bara einn utanaðkomandi aðila til að eyðileggja fallegt ástarsamband."


Athugasemdir
banner
banner
banner