
Enska fótboltasambandið mun íhuga að ráða Brendan Rodgers til starfa ef Gareth Southgate tekur ákvörðun um að stíga frá borði.
Englendingar féllu úr leik á HM síðastliðið laugardagskvöld er þeir töpuðu gegn Frakklandi í átta-liða úrslitunum.
Southgate er að íhuga framtíð sína en hann hefur stýrt liðinu með ágætum árangri frá árinu 2016.
Rodgers, sem stýrir Leicester City, er sagður ofarlega á óskalista enska sambandsins ef Southgate hættir. Rodgers er frá Norður-Írlandi en hann hefur búið sér til flottan feril á Bretlandseyjum með Swansea, Liverpool, Celtic og Leicester.
Enska fótboltasambandið vill ráða Englending ef Southgate hættir en möguleikarnir hvað það varðar eru ekki margir. Graham Potter og Eddie Howe eru líklega ekki tilbúnir að hætta í sínum störfum og þá eru Frank Lampard og Steven Gerrard ekki tilbúnir.
Athugasemdir