Delap nálgast Man Utd - Rift við Laporte - Arsenal og Liverpool berjast um Huijsen
   mið 14. maí 2025 23:08
Brynjar Ingi Erluson
Ítalía: Bologna bikarmeistari í fyrsta sinn í 51 ár
Bologna er bikarmeistari 2025!
Bologna er bikarmeistari 2025!
Mynd: EPA
Leikmenn tolleruðu Vincenzo Italiano, þjálfara liðsins, í leikslok
Leikmenn tolleruðu Vincenzo Italiano, þjálfara liðsins, í leikslok
Mynd: EPA
Milan 0 - 1 Bologna
0-1 Dan Ndoye ('53 )

Bologna varð ítalskur bikarmeistari í fyrsta sinn í 51 ár er liðið bar sigurorð af AC Milan, 1-0, á Ólympíuleikvanginum í Róm í kvöld.

Langt var liðið frá síðasta titli Bologna-mann en sá síðasti var sumarkeppni UEFA, Inter-Toto keppnin, sem Bologna sigraði árið 1998.

Þar á undan vann liðið B-deildina tvisvar á tíunda og níunda áratugnum, en markmiðið var að vinna fyrsta bikarmeistaratitilinn síðan 1974.

Santiago Castro komst nálægt því að skora strax á 7. mínútu er hann skallaði fyrirgjöf í átt að marki en Mike Maignan, fyrirliði Milan, var vel á verði í markinu.

Þremur mínútum síðar fengu Milan-menn tvö færi í sömu sókninni en á einhvern ótrúlegan hátt fór boltinn ekki yfir línuna. Lukasz Skorupski bjargaði fyrst sjálfsmarki frá varnarmanni Bologna og síðan aftur frá Luka Jovic.

Bologna var líklegra liðið til að skora í leiknum og kom sigurmarkið á 53. mínútu. Boltanum var spilað inn á teiginn á Riccardo Orsolini sem var kominn í dauðafæri en Theo Hernandez náði að tækla boltann frá, þó ekki lengra en út á Dan Ndoye sem tók nokkrar snertingar áður en hann hamraði boltanum í netið.

Milan náði ekki að skapa sér mörg færi eftir það og átti Santiago Gimenez líklega besta færið eftir að Hernandez vann boltann á vinstri vængnum en hann bjóst ekki við sendingunni og setti hann slakt skot beint á Skorupski í markinu.

Bologna er bikarmeistari 2025 og í þriðja sinn í sögunni. Mikill léttir sömuleiðis í Evrópubaráttu liðsins en liðið er nú komið með farseðil inn í Evrópudeildina.

Liðið á samt enn möguleika á að komast í Meistaradeildina. Það situr í 7. sæti með 62 stig, tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti þegar tvær umferðir eru eftir.
Athugasemdir
banner