Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 14. júní 2021 15:04
Ívan Guðjón Baldursson
EM: Skotar óheppnir og Schick hetja Tékka
Mynd: EPA
Skotland 0 - 2 Tékkland
0-1 Patrik Schick ('42)
0-2 Patrik Schick ('52)

Skotar tóku á móti Tékkum í fyrstu umferð Evrópumótsins og úr varð fjörugur leikur þar sem bæði lið fengu mikið af góðum færum.

Skotar voru betri og hættulegri en einhvern veginn tókst þeim ekki að koma knettinum í netið í leiknum.

Það voru gæði Patrik Schick sem gerðu gæfumuninn að lokum þar sem hann skoraði bæði mörk leiksins. Fyrra markið skoraði hann með skalla eftir fyrirgjöf frá Vladimir Coufal, skömmu fyrir leikhlé.

Seinna markið gerði hann í upphafi síðari hálfleiks og var það magnað. Hann tók eftir því að markvörður Skota var kominn úr markinu og lét vaða frá miðjuboganum. Skotið var fullkomið og tvöfölduðu Tékkar þannig forystuna skömmu eftir að Skotar komust hársbreidd frá því að jafna, í tvígang.

Tékkar héldu þetta út þrátt fyrir pressu frá Skotum og voru næstum búnir að ná þriðja markinu. Schick komst nálægt því að fullkomna þrennuna en það gekk ekki og lokatölur urðu 0-2.

Tékkar eru því á toppi D-riðils ásamt Englendingum. Tékkland á næst leik við Króatíu á meðan Skotland mætir Englandi. Nágrannaslagir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner