Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 14. ágúst 2020 09:30
Fótbolti.net
Breyttist algjörlega eftir þriðju krossbandaslitin
Gunnhildur Yrsa ákvað að hlusta ekki á læknana sem hvöttu hana til að hætta í fótbolta og tókst að koma sterkari til baka eftir þriðju krossbandaslitin
Gunnhildur Yrsa ákvað að hlusta ekki á læknana sem hvöttu hana til að hætta í fótbolta og tókst að koma sterkari til baka eftir þriðju krossbandaslitin
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er gestur í nýjasta þætti Heimavallarins. Ferill Gunnhildar hefur ekki verið áfallalaus en með eljusemi og góðu hugarfari hefur hún unnið sig upp úr miklu mótlæti og hefur leikið sem atvinnukona undanfarin 8 ár auk þess sem hún er mikilvægur leikmaður A-landsliðsins. Þegar hún var 25 ára hvöttu læknar hana til að hætta í fótbolta eftir að hún sleit krossbönd í þriðja skipti.

Gunnhildur Yrsa er uppalin hjá Stjörnunni en eftir sumarið 2012 ákvað hún að taka skrefið og fara til Noregs í atvinnumennsku. Hún varð fljótlega fyrir miklu áfalli þegar hún sleit krossband, þá í þriðja skipti. Þetta var ekki aðeins skelfilegt fyrir leikmann sem var að stíga sín fyrstu skref í atvinnumennsku heldur var Evrópumótið handan við hornið.

„Þetta var hrikalegt. Ég var nýkomin út. Búin að spila 5-6 leiki með Arna Björnar. Var að spila vel og leið vel. Svo slít ég krossbönd og þá var vika í að lokahópurinn fyrir EM 2013 kom saman. Ég þurfti að hringja í Sigga Ragga og tilkynna honum að ég væri með slitið krossband og gæti ekki tekið þátt.“

„Þetta var þriðja skiptið og þarna hugsaði ég bara, af hverju ég? Hvað var ég að gera rangt? En svo þarf maður bara að taka á þessu. Þetta er bara partur af boltanum. Læknar sögðu mér að leggja skóna á hilluna og segja þetta gott en ég var ekki tilbúin til þess,“
sagði Gunnhildur Yrsa sem íhugaði að snúa aftur heim á þessum tímapunkti.

„Ég var næstum því farin aftur til Íslands og aftur í Stjörnuna en fyrst ég var komin út ákvað ég að láta reyna á þetta almennilega. Ég æfði eins og vitleysingur og það borgaði sig.“

Gunnhildur Yrsa ákvað að fara í aðgerð úti í Noregi og taka endurhæfinguna þar. Það þýddi að hún hafði ekki mikinn stuðning en flestir vinir hennar og liðsfélagar voru burtu í sumarfríi á þessum tíma.

„Ég var ein í Bergen þegar ég fór í aðgerðina. Svo þurfti ég að hringja í starfsmann félagsins til að koma að sækja mig. Hún beið bara fyrir utan, kom ekki einu sinni inn að sækja mig. Svo skutlaði hún mér heim og sagði gangi þér vel. En ég átti heima á þriðju hæð og þurfti svo að koma mér ein upp stigann. Þetta var mjög mikið fíaskó en það gerir mann að betri leikmanni að ganga í gegnum svona erfiða tíma. Ég breyttist algjörlega á þessum tímapunkti, áttaði mig á því hvað ég þurfti að leggja í þetta og var tilbúin í það.“

„Þegar ég slít krossbönd þarna er ég með 8 landsleiki en er komin með yfir sjötíu í dag. Ég sé alls ekki eftir þessu. Draumurinn hefur alltaf verið að spila með landsliðinu en þegar ég sleit í annað skiptið hélt ég að sá draumur væri alveg farinn. Það að hafa náð þessum árangi með landsliðinu er eitthvað sem ég hafði aldrei hugsað mér.“


Hlustaðu á Gunnhildi Yrsu á Heimavellinum.
Heimavöllurinn - Gunnhildur Yrsa er mætt aftur í íslenska boltann
Athugasemdir
banner
banner
banner