Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 14. september 2021 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Solskjær myndi gefa Martial stoðsendinguna í fjórða markinu
Sóknarmaðurinn Ole Gunnar Solskjær og Paul Pogba sem átti tvær stoðsendingar.
Sóknarmaðurinn Ole Gunnar Solskjær og Paul Pogba sem átti tvær stoðsendingar.
Mynd: EPA
Ole Gunnar Solskjær sat fyrir svörum á fréttamannafundi fyrir leik Manchester United gegn Young Boys í Meistaradeildinni.

Stoðsendingafjöldi Paul Pogba var til umræðu en hann hefur lagt upp sjö mörk í fyrstu fjórum umferðum ensku úrvalsdeildarinnar.

„Paul kom til baka í mjög góðu standi. En hvað er stoðsending? Sending til hliðar á Bruno sem skorar með frábæru skoti eða þegar Paul á frábæra sendingu innfyrir á Mason [Greenwood] sem fer framhjá einum og skorar?" velti Solskjær fyrir sér.

„Paul hefur alltaf verið frábær sendingarmaður og við vitum það. Hann er líklega einn besti sendingarmaður í evrópskum fótbolta. Hann hefur sennilega ekki fengið stoðsendingar eftir hans bestu sendingar á þessari leiktíð. Ég tel ekki stoðsendingar, það er fyrir samfélagsmiðla og ykkur fjölmiðla. Paul hefur spilað vel, það er klárt mál."

Pogba lagði upp tvö mörk fyrir Manchester United gegn Newcaste um helgina. Pogba átti sendinguna á Bruno Fernandes í þriðja marki United og sendinguna á Jesse Lingard í fjórða markinu. Anthony Martial átti stóran þátt í fjórða markinu þar sem hann hljóp yfir sendinguna frá Pogba og Lingard kláraði svo vel.

„Ég myndi gefa Anthony Martial stoðsendinguna í markinu hjá Jesse. Hann lætur boltann fara eins og Yorke og Cole gerðu. Það eru svo margir fleiri hlutir en tölfræði," sagði Solskjær.

David de Gea sat sama fréttamannafund og skaut inn í að hann hefði átt frábæra sendingu í þriðja markinu. „Já, mér finnst að David eigi skilið stoðsendingu fyrir sendinguna í því marki."

Leikur Manchester United gegn Young Boys hefst klukkan 16:45 í dag. Leikurinn er á beinni á ViaPlay. Mörkin úr leiknum gegn Newcastle má sjá hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner