Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   fös 14. október 2022 18:17
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ákvörðunin kom Alfreð á óvart - „Svekktur yfir því þegar menn segja eitt og gera allt annað"
Lengjudeildin
'Ég þarf bara að bíta í það súra epli'
'Ég þarf bara að bíta í það súra epli'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Starfsliðið var frábært og við vorum búnir að smíða góða umgjörð í kringum liðið'
'Starfsliðið var frábært og við vorum búnir að smíða góða umgjörð í kringum liðið'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðjón Pétur kom í glugganum. -Þá eru menn alveg 'all-in'-
Guðjón Pétur kom í glugganum. -Þá eru menn alveg 'all-in'-
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í síðasta mánuði varð það ljóst að Alfreð Elías Jóhannsson yrði ekki áfram þjálfari Grindavíkur. Það var tilkynnt eftir aukaaðalfund knattspyrnudeildar í lok síðasta mánaðar. Alfreð tilkynnti sjálfur að hann yrði ekki áfram með færslu á Facebook og skömmu síðar staðfesti félagið tíðindin.

Grindvíkingurinn Alfreð var á sínu fyrsta tímabili með liðið en hann hafði árin á undan þjálfað kvennalið Selfoss.

„Þetta kom mér á óvart miðað við það sem stóð til fyrir ári síðan. Það stóð til að vera með 3-5 ára plan. Nei nei, ósáttur og ekki ósáttur, þetta er bara partur af þessu. Menn breyta bara um stefnu og það er bara eins og það er, ég þarf bara að bíta í það súra epli," sagði Alfreð við Fótbolta.net í dag.

Grindavík ætlaði sér að fara í uppbyggingu og það var það sem lagt var upp með þegar Alfreð tók við, en það á greinilega að breyta til og er búið að ráða Helga Sigurðsson sem þjálfara liðsins.

„Ég vissi 30. ágúst að það ætti að breyta til um stefnu, þá voru nokkrir leikir eftir. Þá er mér sagt upp."

Hvað fannst þér um þá tímasetningu? „Mér fannst hún mjög slök, en ég var ekkert að láta leikmenn vita af því."

Breytingar urðu á stjórn knattspyrnudeildar í lok síðasta mánaðar og var Alfreð sagt upp með þeim fyrirvara að ný stjórn gæti endursamið við hann. Hvernig fór hann inn í síðustu vikur fyrir ákvörðunina?

„Ég trúði því að menn væru alveg klárir í að halda sömu vegferð áfram."

Ásættanlegur árangur í því ferli sem Grindavík var í
Hvernig fannst þér tímabilið vera miðað við uppsett markmið?

„Ég kem inn með breytingar, æfingakúltúrinn breyttist dálítið mikið og ég lagði meiri pening í það að fá alvöru menn með mér í frábærum styrktarþjálfara, með sálfræðing, aðstoðarþjálfara og góðan markmannsþjálfara. Starfsliðið var frábært og við vorum búnir að smíða góða umgjörð í kringum liðið."

„Við endum með 30 stig um miðja deild, með fleiri stig en í fyrra, ofar í deildinni, fleiri mörk skoruð og færri mörk fengin á okur. Ég held að það sé bara mjög ásættanlegur árangur í þeirri stefnu sem við erum að reyna byggja upp í því ferli sem við vorum."

„En það er ekki til neinn kali hjá mér gagnvart einhverjum. Það er ekkert svoleiðis, en auðvitað er maður pínu svekktur yfir því þegar menn segja eitt og gera allt annað."


Á hvaða tímapunkti upplifir þú að félagið ætli sér í aðra stefnu en talað var um í upphafi?

„Það er einhvern tímann í ágúst. Að mínu viti fæ ég mjög góðan og sterkan leikmann inn í Guðjóni Pétri (Lýðssyni). Það var í enda gluggans. Þá eru menn alveg 'all-in', en síðan gerist eitthvað sem ég veit ekki."

Taldi sig vera á góðri leið
Hvernig fannst þér þín endurkoma í karlaboltann eftir fimm ár í kvennaboltanum? Varstu ánægður með þig sjálfan?

„Ég gerði örugglega einhver mistök eins og flestir í þessu. En ég er mjög ánægður með mína innkomu inn í minn gamla klúbb með það að gera að ég gerði hlutina nákvæmlega eins og ég ætlaði að gera þá, með því að vera hreinn og beinn og ganga hreinn til verka. Það er ýmislegt sem þarf að gera og ég taldi mig vera á góðri leið."

Verður áfram í þjálfun
Hvað tekur við?

„Ég verð klárlega áfram í þjálfun. Það eru búnar að vera ýmsar þreyfingar og ég er búinn að neita tveimur tilboðum. Ýmislegt í gangi," sagði Alfreð að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner