Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 15. júní 2019 17:52
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: KR á toppinn og meistararnir af botninum
Toppsætið er KR-inga.
Toppsætið er KR-inga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Örn átti mjög góðan leik.
Óskar Örn átti mjög góðan leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lasse Petry gerði tvennu fyrir Val.
Lasse Petry gerði tvennu fyrir Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur vann sinn annan sigur ísumar.
Valur vann sinn annan sigur ísumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR verður á toppnum í Pepsi Max-deild karla eftir átta umferðir. KR-ingar hafa hægt og rólega verið að nálgast toppsætið og núna eru þeir komnir á toppinn.

ÍA og KR, tvö stórveldi í íslenskri knattspyrnu, áttust við á Akranesi í dag. Toppsætið var í boði fyrir sigurliðið úr leiknum.

Svo fór að KR fékk vítaspyrnu á 15. mínútu og úr henni skoraði Pálmi Rafn Pálmason af miklu öryggi. Stuttu síðar skoraði Óskar Örn Hauksson með hnitmiðuðu skoti. Reynsluboltarnir skoruðu mörkin fyrir KR.


Danski sóknarmaðurinn Tobias Thomsen fékk nokkur dauðafæri til að bæta við marki fyrir KR-inga í seinni hálfleik og skoraði hann loksins á 80. mínútu. Þriðja mark KR og sanngjarn sigur gulltryggður fyrir Vesturbæinga. Viktor Jónsson náði reyna að klóra í bakkann fyrir ÍA, en lengra komust þeir ekki.

KR vann aðeins einn leik í fyrstu fjórum umferðunum en þeir eru núna komnir með fjóra sigra í röð og eru á toppi deildarinnar með 17 stig, einu stigi meira en ÍA og Breiðablik. Annað tap ÍA í röð staðreynd.

Íslandsmeistararnir af botninum
Það fór fram annar leikur á sama tíma og þar komust Íslandsmeistarar Vals af botni deildarinnar.

Byrjun Vals í deildinni hefur verið hræðileg og var liðið aðeins með fjögur stig og einn sigur úr fyrstu sjö umferðunum. Annar deildarsigur liðsins kom í dag.

Valur tók á móti ÍBV að Hlíðarenda í botnbaráttuslag. Daninn Lasse Petry, sem hefur fengið gagnrýni fyrir slaka frammistöðu í upphafi móts, kom Val yfir á 21. mínútu og var staðan 1-0 í hálfleik. „SVAKALEGT MARK FRÁ DANANUM! Þetta er sennilega það sem allir Valsarar hafa beðið eftir frá Lasse Petry í sumar. Valsmenn taka stutt horn og Lasse Petry fær boltann við vítateigshornið og þrumar honum upp í nærhornið!" skrifaði Arnar Daði í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.

Snemma í seinni hálfleik jafnaði ÍBV með öðru glæsimark leiksins. Sigurður Arnar með mark af 28 metrunum upp í fjærhornið framhjá Antoni Ara!" skrifaði Arnar Daði.

Í staðinn fyrir að kasta leiknum frá sér þá bitu Valsmenn í skjaldarrendur og kláruðu leikinn. Skagamaðurinn Andri Adolphsson kom Val yfir og Ólafur Karl Finsen gerði þriðja markið á 60. mínútu. Lasse Petry skoraði svo fjórða mark Val áður en Ólafur Karl bætti við fimmta markinu.


Annar sigur Vals í sumar niðurstaðan að Hlíðarenda og eru Íslandsmeistararnir komnir upp úr fallsæti með sjö stig. ÍBV er hins vegar á botninum með fjögur stig. Í fallsæti með ÍBV er HK.

Það er spurning hversu mikið Gary Martin, fyrrum framherji Vals, nær að hjálpa ÍBV. Hann kemur til liðs við Vestmannaeyinga þegar glugginn opnar í júlí.

ÍA 1 - 3 KR
0-1 Pálmi Rafn Pálmason ('15 , víti)
0-2 Óskar Örn Hauksson ('23 )
0-3 Tobias Bendix Thomsen ('80 )
1-3 Viktor Jónsson ('83 )
Lestu nánar um leikinn

Valur 5 - 1 ÍBV
1-0 Lasse Petry Andersen ('21 )
1-1 Sigurður Arnar Magnússon ('53 )
2-1 Andri Adolphsson ('55 )
3-1 Ólafur Karl Finsen ('60 )
4-1 Lasse Petry Andersen ('64 )
5-1 Ólafur Karl Finsen ('84 )
Lestu nánar um leikinn

Klukkan 17:00 hófst leikur KA og Grindavíkur. Smelltu hér til að fara í beina textalýsingu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner