Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   fim 15. ágúst 2024 21:45
Ívan Guðjón Baldursson
Evrópudeildin: Sverrir úr leik eftir sautján vítaspyrnur
Elfsborg mætir Molde
Mynd: Panathinaikos
Mynd: Guðmundur Svansson
Sverrir Ingi Ingason og liðsfélagar hans í gríska stórveldinu Panathinaikos munu ekki taka þátt í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í haust eftir að hafa verið slegnir út af Ajax í kvöld.

Panathinaikos tapaði fyrri leiknum á heimavelli en tókst að sigra í Amsterdam í kvöld og knýja viðureignina í framlengingu.

Brasilíski kantmaðurinn Tete, sem hefur meðal annars leikið fyrir Lyon og Leicester City á ferlinum, skoraði mark Panathinaikos á lokamínútum venjulegs leiktíma.

Hvorugu liði tókst að skora í framlengingunni og því var gripið til vítaspyrnukeppni, en engan óraði fyrir hversu löng hún gæti orðið.

Í heildina þurfti hvort lið að taka 17 vítaspyrnur, þar sem flestir leikmenn neyddust til að spyrna tvisvar. Sverrir Ingi lék allan leikinn í hjarta varnarinnar og átti frábæran leik. Hann klúðraði þó áttundu spyrnu Panathinaikos í vítakeppninni.

Brian Brobbey, framherji Ajax, var sá eini sem klúðraði tveimur vítaspyrnum, en það kom ekki að sök þar sem Ajax er komið áfram í næstu umferð.

Remko Pasveer var hetja Ajax, þar sem hann varði fimm vítaspyrnur og skoraði sjálfur af punktinum.

Kristian Nökkvi Hlynsson var ónotaður varamaður í liði Ajax, sem mætir pólska félaginu Jagiellonia í úrslitaleik um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Panathinaikos fer niður í úrslitaleik um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar og á þar mjög erfiðan leik framundan við franska félagið Lens.

Andri Fannar Baldursson og Eggert Aron Guðmundsson sátu þá á bekknum allan tímann er Elfsborg tryggði sér þátttöku í úrslitaleik um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Elfsborg vann 2-0 gegn Rijeka frá Króatíu eftir 1-1 jafntefli í fyrri leiknum. Sænska félagið mætir Norðmönnunum í Molde í skandinavískum úrslitaleik um sæti í Evrópudeildinni.

Ajax 0 - 1 Panathinaikos (1-1 samanlagt)
0-1 Tete ('89)
13-12 eftir vítaspyrnukeppni

Elfsborg 2 - 0 Rijeka
1-0 M. Baidoo ('68)
2-0 A. Qasem ('83)
Athugasemdir
banner
banner