fös 15. október 2021 15:11
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Guardiola tjáði sig um Sterling og Stones - „Svona er þetta hjá stórum félögum"
Sterling fagnar með landsliðinu.
Sterling fagnar með landsliðinu.
Mynd: Getty Images
John Stones hefur ekki fengið að spila með City á tímabilinu
John Stones hefur ekki fengið að spila með City á tímabilinu
Mynd: Getty Images
Raheem Sterling sagði frá því í vikunni að hann væri opinn fyrir því að fara frá Manchester City og fara í lið þar sem hann spilar reglulega. Pep Guardiola, stjóri City, tjáði sig um málið á fréttamannafundi í dag.

„Ég get ekki lofað leikmönnum hversu mikið þeir spila, þeir verða að sanna sig á vellinum. Þar er best að sýna hvað þeir eiga skilið margar mínútur, ekki bara Raheem heldur allir leikmenn."

„Ég vil að allir séu ánægðir en ef þeir eru það ekki þá er þeim frjálst að taka ákvarðanir hvað sé best fyrir þá. Fótboltamenn vilja allir spila 90 mínútur en ég get ekki lofað því að þeir fái það. Þeir verða að sanna sig á æfingum og þegar þeir fá tækifæri í liðinu,"
sagði Guardiola.

Meiðsli Torres alvarlegri en áætlað var
Guardiola segir þá að Ferran Torres yrði frá í allt að þrjá mánuði vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í landsliðsverkefni með Spáni. Miðað við fyrstu fregnir var gert ráð fyrir því að hann yrði frá í sex vikur.

Ilkay Gundogan og Oleksandr Zinchenko hafa æft með liði City og er Guardiola ánægður að fá þá til baka.

John veit hvernig staðan er
John Stones og Ruben Dias spiluðu stóran hluta síðasta tímabils saman í miðverðinum hjá City. Á þessu tímabili hefur Aymeric Laporte komið inn í liðið við hlið Dias.

Sjá einnig:
Klopp skýtur á Southgate: Herra Stones fær sérmeðferð

„Aymeric hefur spilað ótrúlega vel við hlið Ruben svo það er sanngjarnt að hann spili," sagði Guardiola.

„John veit hvernig staðan er og er að berjast fyrir því að komast í liðið. Ég veiti mönnum alltaf tækifæri á að spila, sumum meira en öðrum en þegar þeir fá tækifærið verða þeir að sýna hversu góðir þeir eru."

„Ég get ekki lofað því að einhver muni spila, ekki Kevin De Bruyne, ekki Ruben Dias og ekki Phil Foden [sem dæmi]. Svona er þetta hjá stórum félögum og besta leiðin er að sanna sig á æfingum,"
sagði Pep.
Athugasemdir
banner
banner
banner