Lewis-Skelly á blaði fjögurra félaga - Mörg stórlið vilja ungstirni Hertha Berlin - Casemiro gæti fengið nýjan samning - Toney til Englands?
banner
   mið 12. nóvember 2025 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Njarðvíkingar stórhuga - Þrír öflugir orðaðir við félagið
Lengjudeildin
Damir Muminovic.
Damir Muminovic.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Adam Árni.
Adam Árni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Njarðvíkingar eru stórhuga og er ljóst að markmiðið er að fara upp úr Lengjudeildinni 2026, alveg eins og markmiðið var að fara upp úr deildinni í ár.

Bikarmeistarinn Davíð Smári Lamude var ráðinn þjálfari liðsins í síðustu viku og í gær var reynsluboltinn Eiður Aron Sigurbjörnsson kynntur sem nýr leikmaður félagsins.

Fótbolti.net hefur heyrt þrjá leikmenn orðaða við félagið á síðustu dögum. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur möguleikinn á því að fá Damir Muminovic verið kannaður. Damir liggur undir feldi varðandi næsta skref á ferlinum, en ljóst er að hann verður ekki áfram hjá Breiðabliki.

Adam Árni Róbertsson átti frábært tímabil með grönnunum í Grindavík og fékk leyfi í haust til að ræða við önnur félög, en hann er samningsbundinn Grindavík. Hann er fæddur árið 1999 og skoraði 14 mörk í 19 deildarleikjum í sumar. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Njarðvík árið 2016 og hefur verið orðaður við endurkomu til Njarðvíkur.

Þá heyrðist af því að Rafael Victor, fyrrum framherji liðsins, hefði áhuga á því að spila aftur með liðinu. Hann fór í Þór frá Njarðvík eftir tímabilið 2023.

Áður hafði Pálmi Rafn Arinbjörnsson verið orðaður við heimkomu í Njarðvík en hann hefur lagt hanskana á hilluna.
Athugasemdir
banner