Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 16. janúar 2022 22:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Lukaku pirrar stuðningsfólk - Hresst handaband eftir tapleik
Romelu Lukaku.
Romelu Lukaku.
Mynd: EPA
Tuchel gagnrýndi Lukaku eftir leik.
Tuchel gagnrýndi Lukaku eftir leik.
Mynd: EPA
Sóknarmaðurinn Romelu Lukaku var langt frá sínu besta þegar Chelsea tapaði gegn Manchester City í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, gagnrýndi Lukaku opinberlega eftir leikinn.

„Hann tapaði boltanum oft þegar það var engin pressa og þegar við vorum í góðri stöðu," sagði Tuchel. „Við viljum aðstoða hann, en hann er hluti af liðinu og stundum verður hann að aðstoða liðið líka. Hann fékk frábært færi."

Síðustu vikur hafa ekki verið góðar fyrir Lukaku. Fyrir áramót fór hann í viðtal sem fór ekki vel í stuðningsfólk Chelsea. Hann kvartaði yfir leikkerfi Tuchel og virtist gefa í skyn að það væri ástæðan fyrir því að hann væri ekki að spila vel. Í viðtalinu talaði hann um ást sína á Inter, félagið sem hann yfirgaf til þess að fara til Chelsea síðasta sumar.

„Ef ég hefði fengið boð um nýjan samning eins og ég vildi, þá væri ég ekki hér í þessu viðtali í London. Ég hefði 100 prósent verið áfram hjá Inter. Ég er alltaf að hugsa um Mílanó. Stuðningsfólk Inter er það besta í heimi," sagði Lukaku, en fjárhagsstaða Inter gerði félaginu það ekki kleift að bjóða honum nýjan samning.

Lukaku sagði einnig í viðtalinu: „Það eru þrjú topplið í fótbolta - Real Madrid, Barcelona og Bayern München. Öllum leikmönnum dreymir um þessi félög. Ég hugsaði um að skrifa undir nýjan samning við Inter og fara svo í eitthvert þessara félaga. En það kom ekki upp og þá var bara einn möguleiki - Chelsea."

Lukaku bað stuðningsfólk Chelsea afsökunar en hann hefur ekki gert mikið til þess að vinna það á sitt band með frammistöðu inn á vellinum. Hún hefur alls ekki verið góð og er hann aðeins búinn að skora fimm deildarmörk í 14 leikjum.

Á Twitter birtist myndband þar sem frammistaða Lukaku í gær var tekin saman. Þar er hægt að sjá hvers vegna Tuchel var frekar pirraður með þennan dýrasta leikmann í sögu Chelsea.

Lukaku pirraði jafnframt stuðningsfólk félagsins beint eftir leik er hann hitti Kevin de Bruyne, leikmann Man City. Þeir tóku sérstakt handaband og fór það ekki vel í lýðinn að Lukaku væri að heilsa andstæðingi á þennan hátt beint eftir tapleik. Lukaku og De Bruyne eru liðsfélagar í belgíska landsliðinu. Hér að neðan má sjá myndband af handabandinu og myndbandið sem sýndi helstu tilþrif Lukaku í leiknum við City.



Athugasemdir
banner
banner
banner